16.12.2008 | 10:24
Æ sér gjöf til gjalda - um íslenskan fjölmiðlamarkað
Líklega má orða ástandið á íslenskum fjölmiðlamarkaði þannig að allt sé að fara til fjandans.
Skjár einn ber sig aumlega, bað fyrir nokkru fólk um að velja milli þess að Skjár einn legði upp laupana eða RÚV færi af auglýsingamarkaði. Mér virðast allir aðstandendur einkarekinna sjónvarpsstöðva, þ.e. fjölmiðlar á snærum Baugsblokkarinnar annars vegar og Existu hinsvegar, berjast fyrir því að RÚV minnki hlut sinn á sjónvarpsauglýsingamarkaði og helst hverfi þaðan. Auðvitað. Það eru þeirra hagsmunir að auka tekjur sínar.
Markaðurinn hjálpar þeim fjölmiðlum sem vita ekki hvað þeir eru eða vilja verða. Hann stýrir þeim inn á meðalbrautina sem engan meiðir og engan mikilvægan styggir. Það er sú hönd sem hefur haldið gagnrýnisröddum á framgang íslenskra viðskiptamanna í lágmarki í umræðu síðustu ára.
Ég las á bloggi um daginn að íslenskir fjölmiðlamenn væru þeir verstu í heimi og þeir bæru mikla ábyrgð á því hvernig er komið fyrir íslensku samfélagi. Ég get ekki tekið undir að íslenskir fjölmiðlamenn séu þeir verstu í heimi. Þeir endurspegla einfaldlega, eins og fjölmiðlar almennt gera, gildismat þjóðarinnar. Við höfum hins vegar búið við mjög óheilbrigt fjölmiðlaumhverfi þar sem lesandinn, íslenska þjóðin, hefur verið í aukahlutverki.
Fyrir nokkrum árum skutu upp kollinum á erlendum brautarstöðvum og strætisvögnum svokölluð metró-blöð. Ég var við störf á DV á þeim tíma sem slíkt dýrindi barst í hendur forsvarsmanna Frjálsar fjölmiðlunar sem töldu sig hafa gripið guð í fótinn. Svona átti að gera hlutina. Gefa þá!
Íslenska módelið var ansi mikið merkilegra en það útlenska. Með sama dreifingarfyrirkomulagi og tíðkaðist erlendis hefði ekki þurft að prenta mörg eintök fyrir íslenska strætisvagna. Í íslenska kerfinu bættist við stórkostlegur kostur og kostnaður sem var að bera blaðið út, alla leið á heimili fólks.
Auglýsendur og eigendur fjármögnuðu og fjármagna útgáfu og dreifingu Fréttablaðsins og um tíma fjármögnuðu þeir líka 24 stundir. Ég hef áður fjallað um áhrifaleysi lesenda þegar kemur að frímiðlum. Kaupmáttur þeirra er enginn. Þeir eru aðeins tilviljanakenndar prósentur á markaðsplöggum. Auglýsendur ráða og gildismat meirihlutans ræður. Gagnrýnir fjölmiðlar eiga erfitt uppdráttar í slíku umhverfi.
Auðvitað er rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla stórlega skekkt. Þau frumvarpsdrög sem komið hafa fram beina sjónum sínum að ljósvakamiðlunum og takmarka aðgang RÚV að auglýsendum. Staða RÚV hefur alltaf verið sterk á auglýsingamarkaði og ætti ekki að koma neinum á óvart, allra síst Skjá einum sem er frímiðill sem hefur ætlað sér að bera sig algjörlega á auglýsingum. Er hægt að ætlast til þess núna, þegar viðskiptamódelið er í uppnámi, að ríkið hlaupi undir bakkavör?
Dagskrá og innihald fjölmiðla eru verðmæti eins og aðrar vörur. Á bak við fjölmiðla liggur mikil vinna og þekking. Á þeim fer fram verðmætasköpun, blaðamenn og dagskrárgerðarmenn skapa verðmæti; fréttadeildir búa til verðmæti úr upplýsingum með sérþekkingu sinni.
Það skyldi þó ekki vera svo að það sem á síðustu árum hafi verulega skekkt rekstrarstöðu fjölmiðla á Íslandi hafi verið ákvörðun mjög fjársterkra aðila um að halda úti svokölluðum frímiðlum?
Ég legg til að þingmenn fari rólega í að samþykkja lög um að skerða tekjumöguleika Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í eilífri og vonlausri leit sinni að patentlausnum. Það væri eins og að hengja bakara fyrir, ja, fyrir búðarmann.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 13. desember 2008.
Stóðum andspænis þessum hroðalegu örlögum" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.11.2008 | 05:07
Áttundi nóvember
Þessi pistill var birtur í Lesbók síðasta laugardag:
Þegar þetta er skrifað að morgni þriðjudagins 11. nóvember gilda neyðarlög á Íslandi. Þrír bankar hafa verið þjóðnýttir og breska ríkisstjórnin hefur beitt hryðjuverkalögum gegn íslenskum borgurum. Um fimm þúsund manns komu saman á Austurvelli síðasta laugardag til að mótmæla. Fáni lágvöruverslunar var dreginn að húni á þinghúsi þjóðarinnar. Eggjum og skyri var kastað í þinghúsið. Á öllum kaffihúsum, kaffistofum ræðir fólk ástandið: uppsagnir, samdrátt, gjaldeyrishöft, framtíðina.
Austurvöllur síðasta laugardag. Við ákveðnar aðstæður verður mannfjöldi að sérstöku dýri, skepnu sem hefur allt aðra eiginleika en einstaklingarnir sem mynda hann. Þeir sem vinna í leikhúsum þekkja þetta, þekkja hvernig leikhúsið breytist eftir kvöldum, eftir því hvernig áhorfendur tengjast. Síðasta laugardag voru mörg þúsund manns saman komin á Austurvelli af ýmsum ástæðum. Óánægja er líklega það sem sameinaði flesta, næg óánægja til að fórna tíma til að mæta á Austurvöll. Og það voru engar fríar pylsur, engin opnunartilboð.
Þegar ég horfði á sjónvarpsfréttir laugardagskvöldsins og sunnudagskvöldsins varð mér hugsað til allra myndskeiðanna þegar sjónvarpsfréttamennirnir hafa fylgst með opnun leikfangaverslana, verslunarmiðstöðva þar sem Íslendingar hafa keypt mikið, slegið kreditkortamet, og eytt til að spara. Á þeim kvöldum hafa áhorfendur frétta stundum fengið að horfa á myndskeið úr þessum verslunum þar sem þau eru sett á meiri hraða og tónlist þöglu myndanna eða úr Benny Hill þáttunum er leikin undir. Það hefur mátt gera grín að venjulegu fólki. Datt mönnum einhvern tíma í hug að leika stefið úr Benny Hill undir myndum frá undirskrift frá enn einum tímamótasamningum auðmannanna eða þegar forseti Íslands veitti Baugi Útflutningsverðlaun?
Austurvöllur 8. nóvember 2008 var merkileg stund. Ekki af því hún væri göfug heldur vegna þess að á þessum stað á þessari stund var sár íslensks samfélags. Og fyrir þá sem ekki vita þá er íslenska þjóðin særð. Hún hefur verið niðurlægð af mönnum sem gerðu hana gjaldþrota, bæði fjárhagslega og siðferðilega. Ofan á þá niðurlægingu bætist lítilsvirðingin sem felst í því að enginn axlar ábyrgð, enginn talar. Þar á ofan kemur það sem margir upplifa sem gagnsleysi fréttamiðlanna og þá sérstaklega sjónvarpsins.
Ein ljósmynd á forsíðu Fréttablaðsins á sunnudag segir meira en allar fréttir sjónvarpsstöðvanna. Góður fréttaljósmyndari getur miðlað sannleika og andrúmslofti betur en sjónvarpsvélarnar. Nálgun hans er oft listræn, hann finnur sjónarhornið, sker myndina í huganum og litgreinir. Ein mynd getur sagt meira en þúsund orð.
Hvar eru orðin? Það eru að eiga sér stað sögulegir atburðir á Íslandi. Þurfa menn að vera í útlöndum til að geta lýst atburðum á þann dramatíska hátt sem þeim sæmir? Hefði íslenskur blaðamaður verið staddur í fjölmennum mótmælum í Úkraínu, systurlandi okkar í neyðinni, væri dramatíkin ekki spöruð. Við þekkjum öll sögur, þekkjum öll fólk sem hefur áhyggjur, fólk sem er reitt. Þegar rólyndur fertugur framkvæmdastjóri fer niður á Austurvöll til að kasta eggi í Alþingishúsið og stendur þar við hliðina á ungum námsmanni og tveggja barna móður og tugum annarra þá er það ekki skrílslæti eins og sumir fjölmiðlar og pólitíkusar vilja kalla það. Það er eitthvað miku meira, það er vitnisburður um ástand, ástand sem við þekkjum fæst en þurfum að horfast í augu við.
Skylda fjölmiðla er að fjalla um það sem er fréttnæmt. Þeirra skylda er ekki að halda fólki rólegu. Það gera þeir allra síst með því að gera lítið úr venjulegu fólki sem á ásamt börnunum sínum eftir að borga upp skuldir sem það stofnaði ekki til.
Íslenska þjóðin hefur lengi haft þörf fyrir góða fjölmiðla en aldrei eins og einmitt núna.
Stórkostlegur fundur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2008 | 10:56
Opinberunarbókin
Pistill sem birtist í Lesbók um miðjan september árið 2006
Mig minnir að það sé í október sem fjölmiðlafólk landsins býr til fjölmiðilinn sem það heldur að íslenska þjóðin þrái. Þá er Gallup, eða hvað sem það annars heitir um þessar mundir, eitthvað C, búið að prenta út bækurnar sem sendar eru á einhver hundruð einstaklinga víða um landið. Í þessar bækur á fólk síðan að skrifa niður fjölmiðlanotkun sína. Samviskusamlega.
Það er til mikils að vinna þessa viku sem könnunin stendur yfir. Dregin eru á flot viðtalsefni sem eru af markaðsfræðingum og blaðamönnum helst talin geta laðað lesendur, áheyrendur eða áhorfendur að fjölmiðlinum. Í þessum könnunarvikum, sem svo nefnast á fjölmiðlunum, kemur vel í ljós hvaða trú fjölmiðlarnir hafa á þjóð sinni.
Fyrir nokkrum árum þegar ég starfaði á síðdegisblaði hér í borg voru dagarnir í kringum þessar kannanir fjörugar svo jaðraði við geðveiki. Stundum fannst okkur blaðamönnunum að allt okkar starf við að halda úti vikulegri helgarútgáfu allan ársins hring væri byggt á misskilningi. Inn á skrifstofuna okkar hrúguðust ritstjórar og markaðsstjórar og velmeinandi og beturvitandi félagar okkar sem samanlagt áttu að búa til blaðið sem væri klæðskerasaumað fyrir allan landslýð, hvorki meira né minna.Vanalega gekk þetta þokkalega, þannig séð. Við vorum allavega ekki reknir þótt blaðið hefði reyndar farið til fjandans. Seinna. Að lokum.
Í tölvu ritstjórnarinnar var listi yfir draumaviðtalsefnin sem var alltaf dreginn upp þegar þær fréttir bárust inn á blaðið að könnun þáverandi Gallups væri komin inn á heimili fólks. Á þessum lista var blanda af merkilegum viðtalsefnum sem voru búin að lofa okkur viðtölum en lágu í "pækli" og biðu eftir könnunarvikunni og áttu að skjóta lestri blaðsins upp úr öllu valdi og hins vegar voru þar merkileg viðtalsefni sem myndu aldrei, aldrei, aldrei gefa kost á sér í viðtöl en ritstjórar blaðsins létu sig dreyma um að myndu opna hjarta sitt á síðum blaðsins. Hver útgáfa varð opinberunarbók.
Og sjá, í eina viku munuð þið taka eftir opinskáum einkaviðtölum við frægt fólk, eiturlyfjaneytendur, ofbeldismenn, fórnarlömb, nektardansmeyjar, Eið Smára, Dorrit; það verða gerðar skoðanakannanir með sjokkerandi niðurstöðum (en skemmtilegum); blöðin verða öll komin á réttum tíma inn um lúguna. En svo jafnar þetta sig.
Allt er þetta skiljanlegt þar sem afkoma fjölmiðlanna er að miklu leyti komin undir þessum tveimur til fjórum vikum á ári því eftir þessum vikum fara birtingahús auglýsingaheimsins að miklu leyti þegar ákveðið er hvar auglýst er. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir frímiðlana svokölluðu sem reiða sig einvörðungu á auglýsingatekjur. Það er því lífsspursmál fyrir fjölmiðla að efni þeirra sé við alþýðuskap svo framtíðin sé björt.
Ísland er lítið land. Það eru víst ekki nema 300 þúsund manns sem búa hérna og neyta allra þessara fjölmiðla. Það er ekki ókeypis að halda úti fjölmiðli og því er augljóst að sérhæfing verður aldrei mikil, varla nokkur, þegar allir þurfa að róa á sömu mið, þegar allir reiða sig á alþýðuhylli. Og einhvern veginn endar þetta með því að allir gefa út sama blaðið, halda úti sömu sjónvarpsstöðinni, sömu útvarpsstöðinni, þó með undantekningum eins og Rás 1 og Morgunblaðinu upp að vissu marki.Það væri ánægjulegt og nauðsynlegt að eiga beittan og greinandi fjölmiðil sem veitir stjórnvöldum almennilegt aðhald því ekki virðist veita af. Það væri ánægjulegt að eiga fjölmiðil sem þorir. En sorrí. Það verður ekki. Af því einfaldlega að það er ekki markaður fyrir slíkan fjölmiðil til lengdar nema hann geti leitað í djúpa vasa. Og djúpir vasar eru vandfundnir og kannski ekki æskilegir þegar kemur að eign fjölmiðla? Ég veit ekki.
Ari Edwald, framkvæmdastjóri 365, kom með mjög jarðbundið og raunsætt mat á stöðu fjölmiðla í Lesbókinni fyrir nokkrum vikum. Hann sagði eitthvað á þá leið að ef samfélagið þróaðist til grunnhyggni og yfirborðskenndar þá myndu fjölmiðlar svara þeirri þróun. Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Blaðsins, sagði ennfremur að fríblöð væru eins góð og þau þyrftu að vera. Og grundvöllur rekstrar þeirra er auðvitað meirihlutinn og skiptir þá engu hvernig sá meirihluti er og hvað hann vill.
Ég er ekki að segja að allt sé á hraðri leið til helvítis. Mig langar bara að benda á að það er ekki lengur hraðleið Strætó upp í Árbæ - en samt kemst maður þangað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2008 kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 15:46
Íslenska stríðið - pistill frá því í ágúst 2006
Íslendingar hafa aldrei verið þátttakendur í stríði þótt þeir hafi á síðustu árum reynt að vera með í hinum vestræna drengjaklúbbi um frekari styrjaldir. Við erum því svolítið úti á túni í allri umræðu um stríðsrekstur og stríðsástand. Sem betur fer.
Og af því að Íslendingar hafa lítið verið í stríðum þá hafa íslenskir fjölmiðlar blessunarlega verið lausir við þá erfiðu og óþolandi stöðu að þurfa að segja fréttir af stríði eigin þjóðar. Maður hlýtur að hafa mikla samúð með fjölmiðlafólki í löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi sem síðustu árin hafa staðið í stríði upp að öxlum. Þeir fjölmiðlar sem hafa af eðlislægri tortryggni, sem hlýtur að vera einn af hornsteinum gagnrýninnar blaðamennsku, sett spurningamerki við þennan stríðsrekstur hafa þurft að sitja undir stöðugum árásum um að vinna gegn þjóðhagslegu öryggi og vinna gegn eigin þjóð. Af því að þeir sem ráða eiga stundum erfitt með að skilja á milli sjálfs sín og þjóðarinnar.
Fjölmiðlar eru mikilvægur þáttur í stríðsrekstri. Ráðamenn tala við þjóðir sínar í gegnum fjölmiðla. Í fjölmiðlunum er byggð upp stemning fyrir stríði. Þá koma allar góðu fyrirsagnirnar sem sameina þjóðina gegn "hinum". Í þessum hluta stríðsins, eins og öðrum hlutum, er þjóðerniskenndin mikilvæg.
Þjóðerniskennd Íslendinga er, eins og trúrækni þjóðarinnar, nokkuð undarleg skepna sem er samansett úr "Ísland er land þitt", Brennivíni, 3 stk. Ungfrú heimi og yfir þetta er í jöfnu lagi slatti af minnimáttarkennd og nesjamennsku. Við erum óánægð með þjóðsönginn okkar og ástæðan fyrir óánægjunni er annars vegar sú að hann er sálmur og hins vegar að það er "voðalega erfitt að syngja hann". Hin ólagvissi meirihluti er því útilokaður frá því að geta kyrjað í sífellu þjóðsönginn ólíkt bræðrum okkar og systrum í Svíþjóð sem vakna eflaust og sofna út frá sínum ágæta þjóðsöngi. Við kunnum ekki sérstaklega að meta náttúru landsins (hún er úti um allt), tungumálið (það þarf alltaf að vera að þýða það), Íslendingasögurnar (þær eru óskiljanlegar) og svo framvegis. Og við eigum engan her og ekkert stríð til að sameina okkur.
Í þessu sérstaka ástandi, sem þjóðernisvitund Íslendinga er, er þó eitt alveg ljóst: Danir eru vondir menn. Við fáum að heyra það frá fæðingu. Manni finnst einhvern veginn að það hljóti að vera einn af síðustu þáttum skírnarinnar að upplýsa barnið um að Danir hafi í aldir selt Íslendingum úldið mjöl dýru verði. Þeir voru vondir við okkur.
Við eigum engan her. Og þó. Við eigum lítinn her sem er viðskiptamenn Íslands. Þeir eru víkingar í útrás. Þeir leggja viðskiptakerfi annarra landa að fótum sér. Það voru þeir sem hefndu fyrir þorskastríðið með því að kaupa Mosaic; það voru þeir sem hefndu fyrir úldna mjölið með því að kaupa Magasín; það voru þeir sem seldu Rússum bjór; það eru þeir sem eiga Ísland; það eru þeir sem við stöndum með.
Danir eru ekki af baki dottnir. Þeir eru reyndar búnir að láta okkur fá Flateyjarbók en það breytir ekki því að þeir eru vondir. Núna eru það ekki dönsku kaupmennirnir sem koma illa fram við okkur heldur danskir blaðamenn og fjármálaspekúlantar.
Reyndar hafa fjármálaspekúlantar allra landa sameinast gegn okkur hvort sem þeir heita Moody's eða Fitch eða guðmávitahvað. Þeir sem eitt sinn gældu við okkur, sögðu okkur hvað við værum frábær og framsýn, segja núna að við séum óábyrg og á leið til glötunar. Ó, ég sagði við. Þetta er þjóðerniskenndin. Auðvitað meinti ég þeir.
Við fáum fréttirnar af öllum erlendu spekúlöntunum og þeirra sýn á ástandið. Í næstu frétt er síðan komið að íslensku viðbrögðunum: íslenskur bankastjóri eða íslenskur ráðherra stígur upp á kassann, segir: "þetta eru útlendingar sem þekkja ekki íslenskan veruleika". Þetta er setning sem virkar alltaf í áróðursstríðinu, hvort sem það er varðandi umhverfismál, fjármál, unglingadrykkju, lífsgæðakapphlaup.
Það er ekki auðvelt að vera í stríði. Þess vegna skulum við spara stríðsfréttirnar fyrir stríð. Íslenskir fjölmiðlar þurfa að gefa blaðamönnum sínum meiri tíma til að afla frétta, greina ástand og miðla svo lesendur, hlustendur, áhorfendur séu ekki fastir í eilífri Morfís-keppni þar sem ríkir alltaf stríðsástand og "hinn" hefur alltaf rangt fyrir sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 15:39
Byggðastofnun alheimsins kemur til bjargar
Muniði eftir öllum fréttunum og frásögnunum af litlu sjávarplássunum sem hafa orðið fórnarlömb kvótakerfisins? Hvernig lífsafkoman var skráð á kennitölur skipstjóra og útgerðarmanns sem réðu ekki allir við ábyrgðina, klúðruðu kvótanum burt úr samfélaginu og íbúarnir sátu eftir í nánast verðlausum húsum?
Núna skiljum við í 101 þetta betur.
Núna þegar Ísland er kvótalaust sjávarþorp.
Núna þegar byggðastofnun alheimsins kemur okkur til bjargar.
Óska eftir 6 milljörðum dala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2008 | 18:33
Annarleg sjónarmið - hlutverk fjölmiðla
Þetta er búið. Eða byrjað. Annað hvort. Líklega bæði.
Jón Trausti Reynisson skrifaði merkilegan leiðara í DV, föstudaginn 10. október. Þetta var í lok þjóðnýtingarvikunnar miklu árið 2008. Í leiðara sínum fjallar Jón Trausti um ábyrgð fjölmiðla í hruninu. Hann rekur ágætlega hvernig ráðamenn réðust gegn þeim sem gagnrýndu kerfið. Jón Trausti segir meðal annars: Það eru ekki lygasjúkir stjórnmála- og viðskiptamenn sem eru rót vandræða okkar, heldur fjölmiðlarnir sem endurómuðu lygina gagnrýnislaust. Þetta snýst ekki um einhver æðri gildi, eins og að sannleikurinn hafi gildi í sjálfum sér. Þetta snýst um hreina hagsmuni almennings og varðar öryggi hans og lífsafkomu.
Jón Trausti hittir naglann á höfuðið. Ef við eigum sem þjóð að draga einhvern lærdóm af þessu skelfilega ástandi sem skapast hefur þá er það að við verðum að vera virk í lýðræðinu. Þeir eru ófáir, stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk, starfsmenn fjármálafyrirtækja og almenningur sem finnast þeir hafa verið hafðir að fíflum, sviknir. Og ólíkt því sem gerist þegar náttúruhamfarir ríða yfir og þjappa þjóðinni saman í óttablandinni virðingu fyrir krafti og miskunnarleysi náttúrunnar, þá stöndum við nú frammi fyrir manngerðum hamförum. Reiðin beinist jafnt inn á við sem út á við.
Á þessum síðum hef ég skrifað pistla um það hversu fréttaformið hefur reynst aumt í alvarlegum málum. Hin hlutlausa frétt gerir sannleika og lygi jafnhátt undir höfði. Afstöðuleysið verður afstaða. Tómhyggja afstöðuleysisins hefur leitt okkur í þá stöðu sem við erum í nú: fjárhagslegt og siðferðilegt gjaldþrot.
Stórkostlegir hagsmunir í pólitík og viðskiptum hafa gert það að verkum að menn gengu hart fram í því að vernda hagsmuni sína, oft á kostnað hagsmuna almennings. Með ofbeldi hafa gagnrýnisraddir verið þaggaðar.
Í virkjanamálum kristallast allir helstu lestir umræðunnar. Náttúrufræðingar, verkfræðingar, jarðfræðingar og fleiri sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa þagað af ótta við að missa vinnu, missa tækifæri til vinnu: eins og í slæmum eineltismálum hafa ráðandi öflin skapað ótta sem leitt hefur til þöggunar, hlýðni. Ráðist hefur verið gegn þeim sérfræðingum sem tjáð hafa sig um virkjanakosti, bæði opinberlega og prívat. Fólk hefur verið sakað um annarleg sjónarmið. Það hefur ekki verið neitt rými fyrir ólikar skoðanir. Hagsmunirnir hafa verið of miklir. Í frasanum annarleg sjónarmið felst að fólki er ekki sjálfrátt ef það er á annarri skoðun: það er handbendi.
Á sama tíma og margir virðast loksins sjá þörfina fyrir sjálfstæða gagnrýna fjölmiðla þá sameinast útgáfur tveggja stærstu dagblaðanna undir merki Árvakurs og í eina sæng ganga tætlurnar af viðskiptaveldum Baugsmanna og Björgólfanna. Morgunblaðið, fyrrverandi málgagn Sjálfstæðisflokksins er orðið systurblað Fréttablaðsins þar sem fremstur í flokki fer ritstjórinn Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Á síðustu vikum höfum við séð að eigendur skipta máli. Nú reynir á útgefandann Árvakur. Átta stjórnendur Árvakurs sig á þeirri gríðarlegu lýðræðislegu ábyrgð sem fylgir þessari stöðu að vera eigendur langstærstu dagblaða landsins? Verða stjórnendur Árvakurs ekki að leggja fram stefnu sína og sýna ábyrgð? Hvernig sjá þeir fyrir sér samspil blaðanna í lýðræðislegri umræðu á Íslandi?
Nú renna upp erfiðir tímar fyrir íslensku þjóðina þar sem eitt helsta viðfangsefnið er að byggja upp traust meðal þjóðarinnar og rannsaka ítarlega hvernig stóð á því að mánudaginn 6. október klukkan 16.05 lýsti forsætisráðherra landsins því yfir að verkefni næstu daga væri að forða íslensku þjóðinni frá gjaldþroti. Hvernig komumst við þangað? Í þessu verkefni leika fjölmiðlar stórt hlutverk. Hvernig ætla þeir að rækja það?
Svör óskast.
Pistillinn birtist í Lesbók Morgunblaðsins 18. október 2008
Engin niðurstaða enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2008 | 17:25
Það er ekki kviknað í
Davíð Oddsson mætti í sjónvarpsviðtal í gærkvöld og samdi nýjan veruleika. Hann náði að koma sér hjá því að svara alvarlegum spurningum um framgöngu sína í Glitnismálinu með því að tala um Jón Ásgeir Jóhannesson. Davíð talaði um stórkostleg áform um stærsta kennitöluflakk Íslandssögunnar og líklega þótt víðar væri leitað.
Davíð Oddsson talaði um brennandi hús og slökkvilið. Í dag hafa fjölmiðlarnir verið fullir af sama líkingamáli. Menn skulu átta sig á því að þetta er ekki húsbruni og Seðlabankinn er ekki slökkvilið. Við stöndum frammi fyrir vanda sem verður ekki útskýrður nema með því að segja satt og rétt frá, greina frá staðreyndum mála.
Það er ekki kviknað í. Íslenskur efnahagur er á hliðinni og við þurfum hreinskiptna og heiðarlega umræðu um þær staðreyndir sem við blasa.
Það er ekkert brennandi hús heldur berst fólk fyrir því að bankar haldi velli; það er ekkert slökkvilið heldur berjast stjórnvöld fyrir því að lífskjör heillar þjóðar fari ekki til fjandans.
Og Davíð, við getum þakkað þér ýmislegt, en við getum ekki þakkað þér fyrir framgöngu þína í þessu máli.
Viðskipti milli landa verða tryggð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2008 | 10:40
Neyðin brýtur neyðarlög
Stund sannleikans er runnin upp. Ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim. Allt í einu uppgötvuðu menn að ekki var hægt að bókfæra ímynd sem eignir, slíkt var ímyndun. Fyrirtæki höfðu vaxið á pappírunum en hvergi annars staðar. Mörg reyndust þau dagdraumar.
Þetta líður hjá.
Hins vegar stöndum við frammi fyrir stóru vandamáli. Við stöndum frammi fyrir almennu vantrausti, öryggisleysi.
Hvað stendur eftir þegar peningarnir eru farnir, partíið búið? Síðustu árin hefur gildismat okkar breyst. Þegar vel gengur minnkar þörf okkar fyrir hugmyndafræði og hugsjónir. Á góðæristímum verða stjórnmál verkefni, þau leysast upp í einstaka framkvæmdaþætti, hugsjónin verður óþörf og oft á tíðum til leiðinda. Á góðæristímum verður gildismatið fólgið í hagnaði. Í gamla daga var þetta kallað úrkynjun.
Á svona tímum þurfum við pólitík og pólitíkusa með hugsjónir og sýn. Nú dugar ekki hugsunarháttur góðærisins. Við þurfum sýn til að við getum aftur byrjað að treysta. Við verðum að treysta því að stjórnmálamennirnir okkar fylgi eigin sannfæringu en ekki þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta. Þeir sem bera ábyrgð á heildarhag samfélagsins mega ekki elta blinda viðskiptamenn fram af klettunum.
Þetta líður hjá.
Forsætisráðherra las minningargrein um horfið fjármálakerfi í gær. Dramatíkin var mikil. Eftir lesturinn sat fólk um allt land og hugsaði hvað hann hefði verið að segja. Við hvern var hann að tala?
Ástandið er tvískipt. Annars vegar eru íslenska bankakerfið að fara til andskotans vegna græðgi og almennrar heimskreppu og hins vegar situr íslenskur almenningur uppi með ónýtan gjaldmiðil. Þær hækkanir á vöru og þjónustu sem orðið hafa, þeir erfiðleikar sem fólk hefur lent í vegna erlendra lána og sú stöðuga hækkun sem fólk hefur séð vegna verðtryggingar lána koma til vegna þess að íslenska krónan hefur sokkið. Heimurinn þarf ekki á íslenskum krónum að halda. Íslenska krónan er fyrir umheiminum jafn kjánaleg og að borða svið. Helsti munurinn á íslenskum krónum og sviðahausum er hins vegar sá að við getum étið sviðin en krónan er næringarlaus.
Þetta verður allt í lagi.
Einn lagði til í gær að lög um umhverfismat yrðu felld úr gildi. Aðrir lögðu til að þorskkvóti yrði aukinn verulega. Höfum við ekkert lært? Hvað stendur eftir nú þegar veislunni er lokið? Fjölskyldur og fyrirtæki á barmi gjaldþrota og hálfbyggt tónlistarhús. Og ætlum við strax aftur á fyllirí?
Nú er tími til að stansa. Nú er tími til að hugsa aðeins fram í tímann því við ættum að hafa lært að einn daginn kemur að skuldadögum. Það er ekki hægt að ganga endalaust á höfuðstólinn. Ísland hefur enn þá náttúrulegu ímynd að útlendingar sækjast eftir að koma hingað og skapa okkur þannig tekjur. Enn þá.
Góðir hlutir gerast hægt.
Sannleikurinn er að koma í ljós. Með miklum harmkvælum. Nú verðum við að ganga alla leið í meðferðinni. Við verðum að viðurkenna vandann, skilgreina hann fyrir sjálfum okkur og það verður að gerast strax. Áður en við fórnum einhverju því sem aldrei verður bætt.
Þetta líður hjá. Þetta verður allt í lagi. Góðir hlutir gerast hægt.
Samson óskar eftir greiðslustöðvun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2008 | 22:38
Ekki lengur Yfirvofandi
15.1.2008 | 12:57
Uppselt, uppselt, uppselt
16. janúar kl. 21.00 - Uppselt
19. janúar kl. 17.00 - Uppselt
19. janúar kl. 19.00 - Uppselt
19. janúar kl. 21.00 - Uppselt
20. janúar kl. 17.00 - Uppselt
20. janúar kl. 19.00 - Uppselt
20. janúar kl. 21.00 - Uppselt
Áhugasamir geta sent póst á netfangið naiv@internet.is til að fara á biðlista, ef einhver dytti út.