Opinberunarbókin

Pistill sem birtist í Lesbók um miðjan september árið 2006

Mig minnir að það sé í október sem fjölmiðlafólk landsins býr til fjölmiðilinn sem það heldur að íslenska þjóðin þrái. Þá er Gallup, eða hvað sem það annars heitir um þessar mundir, eitthvað C, búið að prenta út bækurnar sem sendar eru á einhver hundruð einstaklinga víða um landið. Í þessar bækur á fólk síðan að skrifa niður fjölmiðlanotkun sína. Samviskusamlega.

Það er til mikils að vinna þessa viku sem könnunin stendur yfir. Dregin eru á flot viðtalsefni sem eru af markaðsfræðingum og blaðamönnum helst talin geta laðað lesendur, áheyrendur eða áhorfendur að fjölmiðlinum. Í þessum könnunarvikum, sem svo nefnast á fjölmiðlunum, kemur vel í ljós hvaða trú fjölmiðlarnir hafa á þjóð sinni.

Fyrir nokkrum árum þegar ég starfaði á síðdegisblaði hér í borg voru dagarnir í kringum þessar kannanir fjörugar svo jaðraði við geðveiki. Stundum fannst okkur blaðamönnunum að allt okkar starf við að halda úti vikulegri helgarútgáfu allan ársins hring væri byggt á misskilningi. Inn á skrifstofuna okkar hrúguðust ritstjórar og markaðsstjórar og velmeinandi og beturvitandi félagar okkar sem samanlagt áttu að búa til blaðið sem væri klæðskerasaumað fyrir allan landslýð, hvorki meira né minna.Vanalega gekk þetta þokkalega, þannig séð. Við vorum allavega ekki reknir þótt blaðið hefði reyndar farið til fjandans. Seinna. Að lokum.

Í tölvu ritstjórnarinnar var listi yfir draumaviðtalsefnin sem var alltaf dreginn upp þegar þær fréttir bárust inn á blaðið að könnun þáverandi Gallups væri komin inn á heimili fólks. Á þessum lista var blanda af merkilegum viðtalsefnum sem voru búin að lofa okkur viðtölum en lágu í "pækli" og biðu eftir könnunarvikunni og áttu að skjóta lestri blaðsins upp úr öllu valdi og hins vegar voru þar merkileg viðtalsefni sem myndu aldrei, aldrei, aldrei gefa kost á sér í viðtöl en ritstjórar blaðsins létu sig dreyma um að myndu opna hjarta sitt á síðum blaðsins. Hver útgáfa varð opinberunarbók.

Og sjá, í eina viku munuð þið taka eftir opinskáum einkaviðtölum við frægt fólk, eiturlyfjaneytendur, ofbeldismenn, fórnarlömb, nektardansmeyjar, Eið Smára, Dorrit; það verða gerðar skoðanakannanir með sjokkerandi niðurstöðum (en skemmtilegum); blöðin verða öll komin á réttum tíma inn um lúguna. En svo jafnar þetta sig.

Allt er þetta skiljanlegt þar sem afkoma fjölmiðlanna er að miklu leyti komin undir þessum tveimur til fjórum vikum á ári því eftir þessum vikum fara birtingahús auglýsingaheimsins að miklu leyti þegar ákveðið er hvar auglýst er. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir frímiðlana svokölluðu sem reiða sig einvörðungu á auglýsingatekjur. Það er því lífsspursmál fyrir fjölmiðla að efni þeirra sé við alþýðuskap svo framtíðin sé björt.

Ísland er lítið land. Það eru víst ekki nema 300 þúsund manns sem búa hérna og neyta allra þessara fjölmiðla. Það er ekki ókeypis að halda úti fjölmiðli og því er augljóst að sérhæfing verður aldrei mikil, varla nokkur, þegar allir þurfa að róa á sömu mið, þegar allir reiða sig á alþýðuhylli. Og einhvern veginn endar þetta með því að allir gefa út sama blaðið, halda úti sömu sjónvarpsstöðinni, sömu útvarpsstöðinni, þó með undantekningum eins og Rás 1 og Morgunblaðinu upp að vissu marki.Það væri ánægjulegt og nauðsynlegt að eiga beittan og greinandi fjölmiðil sem veitir stjórnvöldum almennilegt aðhald því ekki virðist veita af. Það væri ánægjulegt að eiga fjölmiðil sem þorir. En sorrí. Það verður ekki. Af því einfaldlega að það er ekki markaður fyrir slíkan fjölmiðil til lengdar nema hann geti leitað í djúpa vasa. Og djúpir vasar eru vandfundnir og kannski ekki æskilegir þegar kemur að eign fjölmiðla? Ég veit ekki.

Ari Edwald, framkvæmdastjóri 365, kom með mjög jarðbundið og raunsætt mat á stöðu fjölmiðla í Lesbókinni fyrir nokkrum vikum. Hann sagði eitthvað á þá leið að ef samfélagið þróaðist til grunnhyggni og yfirborðskenndar þá myndu fjölmiðlar svara þeirri þróun. Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Blaðsins, sagði ennfremur að fríblöð væru eins góð og þau þyrftu að vera. Og grundvöllur rekstrar þeirra er auðvitað meirihlutinn og skiptir þá engu hvernig sá meirihluti er og hvað hann vill.

Ég er ekki að segja að allt sé á hraðri leið til helvítis. Mig langar bara að benda á að það er ekki lengur hraðleið Strætó upp í Árbæ - en samt kemst maður þangað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband