Íslenska stríðið - pistill frá því í ágúst 2006

Íslendingar hafa aldrei verið þátttakendur í stríði þótt þeir hafi á síðustu árum reynt að vera með í hinum vestræna drengjaklúbbi um frekari styrjaldir. Við erum því svolítið úti á túni í allri umræðu um stríðsrekstur og stríðsástand. Sem betur fer.

Og af því að Íslendingar hafa lítið verið í stríðum þá hafa íslenskir fjölmiðlar blessunarlega verið lausir við þá erfiðu og óþolandi stöðu að þurfa að segja fréttir af stríði eigin þjóðar. Maður hlýtur að hafa mikla samúð með fjölmiðlafólki í löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi sem síðustu árin hafa staðið í stríði upp að öxlum. Þeir fjölmiðlar sem hafa af eðlislægri tortryggni, sem hlýtur að vera einn af hornsteinum gagnrýninnar blaðamennsku, sett spurningamerki við þennan stríðsrekstur hafa þurft að sitja undir stöðugum árásum um að vinna gegn þjóðhagslegu öryggi og vinna gegn eigin þjóð. Af því að þeir sem ráða eiga stundum erfitt með að skilja á milli sjálfs sín og þjóðarinnar.

Fjölmiðlar eru mikilvægur þáttur í stríðsrekstri. Ráðamenn tala við þjóðir sínar í gegnum fjölmiðla. Í fjölmiðlunum er byggð upp stemning fyrir stríði. Þá koma allar góðu fyrirsagnirnar sem sameina þjóðina gegn "hinum". Í þessum hluta stríðsins, eins og öðrum hlutum, er þjóðerniskenndin mikilvæg.

Þjóðerniskennd Íslendinga er, eins og trúrækni þjóðarinnar, nokkuð undarleg skepna sem er samansett úr "Ísland er land þitt", Brennivíni, 3 stk. Ungfrú heimi og yfir þetta er í jöfnu lagi slatti af minnimáttarkennd og nesjamennsku. Við erum óánægð með þjóðsönginn okkar og ástæðan fyrir óánægjunni er annars vegar sú að hann er sálmur og hins vegar að það er "voðalega erfitt að syngja hann". Hin ólagvissi meirihluti er því útilokaður frá því að geta kyrjað í sífellu þjóðsönginn ólíkt bræðrum okkar og systrum í Svíþjóð sem vakna eflaust og sofna út frá sínum ágæta þjóðsöngi. Við kunnum ekki sérstaklega að meta náttúru landsins (hún er úti um allt), tungumálið (það þarf alltaf að vera að þýða það), Íslendingasögurnar (þær eru óskiljanlegar) og svo framvegis. Og við eigum engan her og ekkert stríð til að sameina okkur.

Í þessu sérstaka ástandi, sem þjóðernisvitund Íslendinga er, er þó eitt alveg ljóst: Danir eru vondir menn. Við fáum að heyra það frá fæðingu. Manni finnst einhvern veginn að það hljóti að vera einn af síðustu þáttum skírnarinnar að upplýsa barnið um að Danir hafi í aldir selt Íslendingum úldið mjöl dýru verði. Þeir voru vondir við okkur.

Við eigum engan her. Og þó. Við eigum lítinn her sem er viðskiptamenn Íslands. Þeir eru víkingar í útrás. Þeir leggja viðskiptakerfi annarra landa að fótum sér. Það voru þeir sem hefndu fyrir þorskastríðið með því að kaupa Mosaic; það voru þeir sem hefndu fyrir úldna mjölið með því að kaupa Magasín; það voru þeir sem seldu Rússum bjór; það eru þeir sem eiga Ísland; það eru þeir sem við stöndum með.

Danir eru ekki af baki dottnir. Þeir eru reyndar búnir að láta okkur fá Flateyjarbók en það breytir ekki því að þeir eru vondir. Núna eru það ekki dönsku kaupmennirnir sem koma illa fram við okkur heldur danskir blaðamenn og fjármálaspekúlantar.
Reyndar hafa fjármálaspekúlantar allra landa sameinast gegn okkur hvort sem þeir heita Moody's eða Fitch eða guðmávitahvað. Þeir sem eitt sinn gældu við okkur, sögðu okkur hvað við værum frábær og framsýn, segja núna að við séum óábyrg og á leið til glötunar. Ó, ég sagði við. Þetta er þjóðerniskenndin. Auðvitað meinti ég þeir.

Við fáum fréttirnar af öllum erlendu spekúlöntunum og þeirra sýn á ástandið. Í næstu frétt er síðan komið að íslensku viðbrögðunum: íslenskur bankastjóri eða íslenskur ráðherra stígur upp á kassann, segir: "þetta eru útlendingar sem þekkja ekki íslenskan veruleika". Þetta er setning sem virkar alltaf í áróðursstríðinu, hvort sem það er varðandi umhverfismál, fjármál, unglingadrykkju, lífsgæðakapphlaup.

Það er ekki auðvelt að vera í stríði. Þess vegna skulum við spara stríðsfréttirnar fyrir stríð. Íslenskir fjölmiðlar þurfa að gefa blaðamönnum sínum meiri tíma til að afla frétta, greina ástand og miðla svo lesendur, hlustendur, áhorfendur séu ekki fastir í eilífri Morfís-keppni þar sem ríkir alltaf stríðsástand og "hinn" hefur alltaf rangt fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband