Annarleg sjónarmið - hlutverk fjölmiðla

Þetta er búið. Eða byrjað. Annað hvort. Líklega bæði.

Jón Trausti Reynisson skrifaði merkilegan leiðara í DV, föstudaginn 10. október. Þetta var í lok þjóðnýtingarvikunnar miklu árið 2008. Í leiðara sínum fjallar Jón Trausti um ábyrgð fjölmiðla í hruninu. Hann rekur ágætlega hvernig ráðamenn réðust gegn þeim sem gagnrýndu kerfið. Jón Trausti segir meðal annars: „ Það eru ekki lygasjúkir stjórnmála- og viðskiptamenn sem eru rót vandræða okkar, heldur fjölmiðlarnir sem endurómuðu lygina gagnrýnislaust. Þetta snýst ekki um einhver æðri gildi, eins og að sannleikurinn hafi gildi í sjálfum sér. Þetta snýst um hreina hagsmuni almennings og varðar öryggi hans og lífsafkomu.“

Jón Trausti hittir naglann á höfuðið. Ef við eigum sem þjóð að draga einhvern lærdóm af þessu skelfilega ástandi sem skapast hefur þá er það að við verðum að vera virk í lýðræðinu. Þeir eru ófáir, stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk, starfsmenn fjármálafyrirtækja og almenningur sem finnast þeir hafa verið hafðir að fíflum, sviknir. Og ólíkt því sem gerist þegar náttúruhamfarir ríða yfir og þjappa þjóðinni saman í óttablandinni virðingu fyrir krafti og miskunnarleysi náttúrunnar, þá stöndum við nú frammi fyrir manngerðum hamförum. Reiðin beinist jafnt inn á við sem út á við.

Á þessum síðum hef ég skrifað pistla um það hversu fréttaformið hefur reynst aumt í alvarlegum málum. Hin hlutlausa frétt gerir sannleika og lygi jafnhátt undir höfði. Afstöðuleysið verður afstaða. Tómhyggja afstöðuleysisins hefur leitt okkur í þá stöðu sem við erum í nú: fjárhagslegt og siðferðilegt gjaldþrot.
Stórkostlegir hagsmunir í pólitík og viðskiptum hafa gert það að verkum að menn gengu hart fram í því að vernda hagsmuni sína, oft á kostnað hagsmuna almennings. Með ofbeldi hafa gagnrýnisraddir verið þaggaðar.

Í virkjanamálum kristallast allir helstu lestir umræðunnar. Náttúrufræðingar, verkfræðingar, jarðfræðingar og fleiri sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa þagað af ótta við að missa vinnu, missa tækifæri til vinnu: eins og í slæmum eineltismálum hafa ráðandi öflin skapað ótta sem leitt hefur til þöggunar, hlýðni. Ráðist hefur verið gegn þeim sérfræðingum sem tjáð hafa sig um virkjanakosti, bæði opinberlega og prívat. Fólk hefur verið sakað um „annarleg sjónarmið“. Það hefur ekki verið neitt rými fyrir ólikar skoðanir. Hagsmunirnir hafa verið of miklir. Í frasanum „annarleg sjónarmið“ felst að fólki er ekki sjálfrátt ef það er á annarri skoðun: það er handbendi.

Á sama tíma og margir virðast loksins sjá þörfina fyrir sjálfstæða gagnrýna fjölmiðla þá sameinast útgáfur tveggja stærstu dagblaðanna undir merki Árvakurs og í eina sæng ganga tætlurnar af viðskiptaveldum Baugsmanna og Björgólfanna. Morgunblaðið, fyrrverandi málgagn Sjálfstæðisflokksins er orðið systurblað Fréttablaðsins þar sem fremstur í flokki fer ritstjórinn Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Á síðustu vikum höfum við séð að eigendur skipta máli. Nú reynir á útgefandann Árvakur. Átta stjórnendur Árvakurs sig á þeirri gríðarlegu lýðræðislegu ábyrgð sem fylgir þessari stöðu að vera eigendur langstærstu dagblaða landsins? Verða stjórnendur Árvakurs ekki að leggja fram stefnu sína og sýna ábyrgð? Hvernig sjá þeir fyrir sér samspil blaðanna í lýðræðislegri umræðu á Íslandi?

Nú renna upp erfiðir tímar fyrir íslensku þjóðina þar sem eitt helsta viðfangsefnið er að byggja upp traust meðal þjóðarinnar og rannsaka ítarlega hvernig stóð á því að mánudaginn 6. október klukkan 16.05 lýsti forsætisráðherra landsins því yfir að verkefni næstu daga væri að forða íslensku þjóðinni frá gjaldþroti. Hvernig komumst við þangað? Í þessu verkefni leika fjölmiðlar stórt hlutverk. Hvernig ætla þeir að rækja það?

Svör óskast.

Pistillinn birtist í Lesbók Morgunblaðsins 18. október 2008


mbl.is Engin niðurstaða enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Fínn pistill hjá þér Sigtryggur, sem og leiðari Jóns Trausta á dögunum. Er kannski ekki alveg viss um að afstöðuleysið sé það sem allt leiðir til fjandans heldur að gera sér ekki grein fyrir því að frétt af því sem engin frétt er ennþá af er verri en -- ja -- nákvæmlega engin frétt.

Það sem öllu máli skiptir er að spyrja réttu spurninganna. Og láta vera að koma með ímyndað svar við þeim, hvort sem það er eftir öðrum haft eða heimafengið. Komi ekki bitastætt svar frá þeim sem svara eiga er best að láta „fréttina“ eina sig.

Góð kveðja

SHH

Sigurður Hreiðar, 20.10.2008 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband