Hin hræðilega drengjaveröld

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins á laugardag:

Ég hef stundum velt því fyrir mér, þegar dagblöð og fréttir dagsins mæta mér, hvernig það sé að vera ungur strákur og fara í gegnum þessa hrúgu af hryllingsfréttum þar sem karlmenn eru oft í hlutverki hins vonda.

Á síðustu árum hefur hlutfall karla í háskólanámi farið niður í 30% og við fáum stöðugar fréttir af því að strákum líði illa í skólum. Já. Strákum líður illa í skólum! öskra fyrirsagnirnar á mann og maður veltir því fyrir sér hvað réttlæti þessar fyrirsagnir. Jú, þær eru byggðar á könnunum sem sýna að hærra hlutfall drengja en stúlkna líður illa í skóla. Strákum líður hlutfallslega verr í skóla en stelpum. Það þýðir hins vegar ekki að öllum strákum líði illa í skóla. Hversu margar fyrirsagnir þurfa þeir að sjá sem benda til annars til að upplifa sig sem fórnarlömb við minnstu áföll í skólanum? Og stundum finnst mér margt benda til að á lokasprettinum að jafnrétti kynjanna, sem vonandi kemur að á næstu árum, verði farið hressilega yfir á hinn kantinn þar sem drengirnir munu lenda undir. Verulega.

Það er og staðreynd að ungir karlmenn eiga við ýmis alvarleg vandamál að stríða. Pétur Tyrfingsson rekur á bloggi sínu, eyjan.is/peturty, alvarleg vandamál eins og háa sjálfsvígstíðni, námserfiðleika og brottfall úr skólum. Hverjir eru málsvarar drengjanna í fjölmiðlum? Er ekki ávísun á nýjan rússibana í ójafnrétti að skipta mannkyninu stöðugt upp í tvo hópa og alhæfa um báða?

Ímynd karlmanna í fjölmiðlum er oftast ímynd hins grófa og hins sterka. Ungir strákar horfa upp á karlmenn, vel greidda eða lítið greidda, akandi um á Range Rover jeppum með tugi milljóna í laun á mánuði og milljarða eignir; karlmenn sem eru íþróttastjörnur með tugi milljóna í laun á mánuði; karlmenn í rappmyndböndum sem eru hlaðnir gulli og bling-blingi með dansandi konur í kringum sig; karlmenn sem drepa; karlmenn sem nauðga; karlmenn á mótorhjólum sem dýrka ofbeldi; eiturlyfjasala; karlmenn sem ráða. Hvers konar pressa er lögð á þessa drengi? Ef litið er yfir fréttaflutning síðusu missera af vinnumarkaði fer mikið fyrir fréttum af pólskum og litháískum karlmönnum. Þeir eru ímynd hins fátæka farandverkamanns sem vinna fyrir lág laun alla vikuna en eru síðan með óspektir um helgar, drekka mikið, slást, áreita konur. Það má fá þá almennu mynd úr fjölmiðlum og heitum pottum þessa lands að þeir séu hið lægsta á þessu landi um þessar mundir.

Getur verið að ungir strákar upplifi sig vanmáttuga gagnvart þessu samfélagi þar sem peningar eru allsráðandi? Hvað gerirðu ef þú átt ekki peninga?

Það er almennt talið að sjálfsmynd mótist meðal annars af þeirri kynímynd sem birtist í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu. Og hver er ímynd karlmannsins? Mér varð hugsað til þess þegar ég gekk yfir Skólavörðustíginn og varð litið til Hallgrímskirkju sem reis á háholtinu við enda götunnar að þar væri komið hið mikla reðurtákn Reykjavíkur. Og þar sem ég gekk niður Klapparstíginn sótti á mig hin gildishlaðna mynd sem reðurtáknið hefur fengið. Reðurtáknið er í nútímanum tákn um feðraveldið og yfirgang karla í gegnum aldirnar. Ég hugsaði með mér hvort það væri ekki óæskilegt og óeðlilegt að gera þetta tákn um frjósemi og framgang lífs á jörðinni að tákni um ógeðfellda kúgun, ofbeldi og niðurlægingu. Gæti það ekki haft slæm áhrif á kynímynd drengja?

Um hverja verslunarmannahelgi eru áberandi slagorð sem varða unga karlmenn og nauðganir. Karlmenn segja nei við nauðgunum! segja auglýsingarnar eins og það sé eitthvað nýtt, eins og að inni í hverjum ungum manni búi skrímsli sem gæti losnað úr fjötrunum, eins og maðurinn sé í grunninn vondur, grimmur.

Á tímum þar sem hraðinn keyrir úr hófi og pólitíkusar eru með glampa í augunum yfir því að vera loksins komnir í hóp með gróðapungunum er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. Hvernig viljum við búa að strákunum okkar? Hvernig ætlum að rétta hlut þeirra í skólakerfinu þannig að þeim líði betur, verði hrósað jafn mikið og stelpum og hætti ekki í skóla áður en framhaldsmenntun er lokið, þar sem þeir eru einungis þriðjungur háskólanema? Hvernig ætlum við að verja þá fyrir því afskræmda gildismati sem heimur karlmanna í fjölmiðlum sýnir, heimur þar sem peningar og völd skipta öllu máli?

Annars er fyrirsögnin fengin úr viðtali DV við Guðnýju Halldórsdóttur leikstjóra. Hún segir að við búum í hræðilegri drengjaveröld.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband