Flott hjá Björgólfi!

Það er gaman að heyra að Björgólfur og RÚV hafi samið um að efla íslenska dagskrárgerð. Í tilefni af þessum gleðitíðindum birti ég hér pistil sem ég skrifaði í Lesbók og birtist í lok september.

Range Rover breytir ekki sögunni

"En nú get ég hætt að horfa á Spaugstofuna," sagði Jónas Kristjánsson á vefsíðu sinni www.jonas.is þegar ljóst var að Randver Þorláksson yrði ekki með í Spaugstofunni í vetur. Stóra Randversmálið er auðvitað mál málanna þessar vikurnar. Kertafleytingar voru um tíma yfirvofandi og Randver heim! var krafa almúgans sem hefur í þrjúhundruðogeitthvað þætti setið við kassann og drukkið í sig spaug Spaugstofunnar. Hvað verður um Boga og Örvar? spyr fólk. Skiljanlega.

Saga Randvers er íslenskt sjónvarpsdrama. Við fáum sjaldan eða aldrei að upplifa íslenskar leiknar sápur sem eru ekki drifnar áfram af húmor einum saman. Húmor er yndislegur og nauðsynlegur en það er leitt til þess að hugsa að hjartað í okkur sjónvarpsáhorfendum fær aldrei að taka kipp með ótrúlegum vendingum í sögum persóna sem spretta upp úr íslenskum jarðvegi; með skálduðum íslenskum persónum. Íslenskt sjónvarpsdrama er undantekningalítið alvöru fólk og alvöru atburðir, fréttir eða viðtöl. Við getum fengið kökk í hálsinn þegar við horfum á eitt af fjölmörgum átakanlegum einkaviðtölum Kastljóssins en samlíðunin verður aldrei lík því sem maður upplifir við að fylgjast með skáldaðri persónu í heilum þætti, tala nú ekki um heila þáttaröð. Íslenskt sjónvarp er um. Það er fjölmiðill en ekki tæki til frumsköpunar á borð við þá þætti sem við fáum að sjá frá öðrum löndum og þá sérstaklega Bretlandi með allri sinni hefð og fagmennsku og skáldskap. Í íslensku sjónvarpi er með örfáum undantekningum sagt frá hlutum eða þeir stjórnast af fréttatímunum eins og raunin er með hina ágætu Spaugstofu. Stelpurnar á Stöð 2 er hefðbundinn sketsaþáttur og Auddi hræðir íslenskar stórstjörnur að erlendri fyrirmynd.

Næturvaktin hóf göngu sína á Stöð 2 síðasta sunnudag. Það er óhætt að segja að sá þáttur lofi góðu og ekkert minna en yndislegt að búin sé til sería þar sem við fáum að fylgjast með samskiptum og tilfinningalífi fólks, fáum tækifæri til að gleðjast og syrgja.

Það vantar meira íslenskt leikið efni. Ekki bara út af tungumálinu eins og ég skrifaði um í síðasta pistli heldur vegna sjálfsmyndar þjóðarinnar, upplifunarinnar af eigin samfélagi. Fréttir og viðtalsþættir geta aldrei sýnt samfélagið í fullnægjandi ljósi. Við fáum ekki fréttir af því þegar maður í Kópavogi verður ástfanginn. Við fáum ekki fréttir af því þegar heilbrigt barn fæðist á Ísafirði. Fréttir nærast á afbrigðileika, því sem stendur út úr. Gamanþættir nærast á húmor. Við þurfum efni sem nærist á lífinu. Öllu.

Aðferð fréttamennskunnar nægir ekki til að hreyfa við fólki. Gott dæmi um það er öll sú umfjöllun sem fyrir nokkrum árum var um mansal frá fyrrverandi austantjaldslöndum til Norður-Evrópulanda. Fréttir eru sagðar á hverjum degi, oft á hverjum degi. Þær eru því að sumu leyti dæmdar til að verða suð, bakgrunnstónlist. Listaverk Lúkasar Moodyson, Lilja 4-Ever, snerti við fólki. Fólk grét yfir örlögum þessarar stúlku. Það fann til samlíðunar. Fréttir greina frá atburðum, því sem er óvenjulegt en ekki því sem við eigum sameiginlegt. Það þarf listamenn til að sýna okkur manneskjuna, sýna okkur það sem við eigum sameiginlegt. Þá sjáum við spegilmynd okkar í manneskju eða í aðstæðum hennar.

Það sem vantar núna er dramatískur framhaldsþáttur. Við þurfum ekki enn einn þáttinn um samfélagið. Við þurfum þátt þar sem við fáum að kynnast fólki sem á rætur sínar í okkar samfélagi. Við þurfum að geta speglað okkur í manneskjum og aðstæðum sem nágrannar okkar þekkja en ekki við. Og það dugar ekki að gera heimildarmynd um það. Gleymum forvitninni og kröfunni um upplýsingar í smá stund og leyfum okkur að finna til.

Sorrí Þórhallur, ég veit að það stendur mikið til hjá þér, en ég óttast að það sé ekki nóg. Kristján B. Jónasson stakk upp á því í blogginu sínu fyrr í vikunni að einhver jöfurinnn snaraði fram 300 milljónum til að skilja eftir sig ódauðlega arfleifð með því að láta þýða allar heimsbókmenntirnar yfir á íslensku. Geta hinir ekki sameinast um eins og 800 milljónir í þróunarsjóð fyrir íslenskt leikið sjónvarpsefni? Við þörfnumst þess sem þjóð.

Kæri Jón, það eru í mesta lagi 50 Range Roverar. Og Range Rover breytir ekki sögunni.
mbl.is Björgólfur Guðmundsson leggur fram fé til framleiðslu sjónvarpmynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband