Úr umsögnum

"Þessi sýning þarf ekki að hrópa. Hún er hrein og tær og dregur mann til sín eins og segull.

Ég sá sýninguna í dag ásamt um 20 öðrum áhorfendum og það var mögnuð og falleg upplifun. Verkið sver sig í ætt við Pinter, ef maður vill endilega setja á það merkimiða, sem er reyndar óþarft. Það stendur fyllilega undir sér sjálft. Þeir sem sáu leikrit Sigtryggs, Herjólfur er hættur að elska, hér um árið, vita hvað ég er að tala um. Yfirvofandi er enginn eftirbátur fyrirrennara síns.

Það er ómótstæðilegt að setjast til stofu, og það í bókstaflegri merkingu, og fylgjast með listilegri frammistöðu eðalleikaranna Ingvars E. Sigurðssonar og Eddu Arnljótsdóttur, í slíku návígi að hver andardráttur, hvert tár sem hvílir á barmi auga er þrungið. Þá stígur einnig fram ungur leikari, Jörundur Ragnarsson, sem stendur reyndu leikurunum algjörlega jafnfætis með sterkri nærveru og fallega tilfinningu fyrir hverju smáatriði í sinni persónu. Maður hreinlega trúir að hann sé skilgetið afkvæmi Ingvars og Eddu - leikaranna. Svo þroskuð er frammistaða hans."

Viðar Eggertsson á eggmann.blog.is 

 

"Þetta er átakanlegt efni sem auðvelt er að gera væmið og óþolandi tilfinningasamt. Það gerist ekki hér. Sigtryggur heldur fast utan um það og leyfir því aldrei að renna úr greipum sér, og hann fær dygga aðstoð leikara og leikstjóra við það. Ingvar, Edda og Jörundur lifa efnið fremur en að þau leiki það, eða svo er að sjá. Maður grætur ekki yfir þjáningu þessa fólks heldur kvelst hægum kvölum milli þess sem maður hrekkur í kút undan svipuhöggum textans. Fegurð hans og þróttur kemur þeim ekki á óvart sem sá eða las fyrra leikrit Sigtryggs, Herjólfur er hættur að elska sem var sett upp á vegum Þjóðleikhússins vorið 2003. Þar var þjáningin líka viðfangsefnið - ástin, dauðinn og sektin, eins og hér."

Silja Aðalsteinsdóttir á www.tmm.is 

 

"Ástin og dauðinn eru Sigtryggi Magnasyni hugleikin viðfangsefni. Nafnlausu hjónin í þessu verki hans eru rígbundin, ofurseld harmi, glæp úr fortíðinni, sem hindrar þau í að skilja, og tala saman. Hjónabandið er dautt. Dauðinn umlykur það einnig í líki sögumanns, sonar. Hann dýpkar samtalið, skýrir það stundum eða flækir og leiðir það áfram til afhjúpunar og hins óhjákvæmilega endis. Fallega ljóðrænn er texti þessarar vel smíðuðu fléttu, fínleg írónía skýtur oft upp kollinum og knöpp samtöl eru lifandi.

Edda Arnljótsdóttir og Ingvar Sigurðsson leika hin umkomulausu hjón. Þau hafa, þykir manni, setið lengi, jafnvel áratugum saman í þessum sófa, og hreyfa sig í þröngri stofunni, húsinu, af eðlilegu öryggi þess sem þekkir hvern krók og kima. Samband þeirra eða sambandsleysi er þrungið því ósagða og ósegjanlega. Nærvera Ingvars er eins og allajafna ótrúlega sterk. Edda, sem konan er gert hefur "eymdina" að eina valkostinum, er þó ennþá betri. Henni, sem hefur svo einstaka tilfinningu fyrir húmor, tekst auðveldlega að láta íróníu textans lifna við.


...

Á tímum þegar leikritun stendur nokkuð höllum fæti í evrópsku leikhúsi er gaman að ganga til stofu skálds og hlusta á heillandi texta sem gerir kröfur til leikara."

María Kristjánsdóttir í Morgunblaðinu 

 

„Undarlega fallegt og heillandi...“

„... sérstaklega fallegt látleysi í leiknum hjá Jörundi“

Þorgerður E. Sigurðardóttir, Víðsjá.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband