Færsluflokkur: Menning og listir

Yfirvofandi lifnar við í örfá skipti

„Edda Arnljótsdóttir og Ingvar Sigurðsson leika hin umkomulausu hjón. Þau hafa, þykir manni, setið lengi, jafnvel áratugum saman í þessum sófa, og hreyfa sig í þröngri stofunni, húsinu, af eðlilegu öryggi þess sem þekkir hvern krók og kima. Samband þeirra eða sambandsleysi er þrungið því ósagða og ósegjanlega. Nærvera Ingvars er eins og allajafna ótrúlega sterk. Edda, sem konan er gert hefur "eymdina" að eina valkostinum, er þó ennþá betri. Henni, sem hefur svo einstaka tilfinningu fyrir húmor, tekst auðveldlega að láta íróníu textans lifna við.“

Þetta er úr gagnrýni Maríu Kristjánsdóttur í Morgunblaðinu í maí 2007 þegar Yfirvofandi var leikið í stofunni heima á Listahátíð í Reykjavík. Örfáar sýningar verða nú um miðjan mánuðinn. Kaupið miða í naiv@internet.is eða hringið í leikhússtjórann í 661 1100.


Úr umsögnum

"Þessi sýning þarf ekki að hrópa. Hún er hrein og tær og dregur mann til sín eins og segull.

Ég sá sýninguna í dag ásamt um 20 öðrum áhorfendum og það var mögnuð og falleg upplifun. Verkið sver sig í ætt við Pinter, ef maður vill endilega setja á það merkimiða, sem er reyndar óþarft. Það stendur fyllilega undir sér sjálft. Þeir sem sáu leikrit Sigtryggs, Herjólfur er hættur að elska, hér um árið, vita hvað ég er að tala um. Yfirvofandi er enginn eftirbátur fyrirrennara síns.

Það er ómótstæðilegt að setjast til stofu, og það í bókstaflegri merkingu, og fylgjast með listilegri frammistöðu eðalleikaranna Ingvars E. Sigurðssonar og Eddu Arnljótsdóttur, í slíku návígi að hver andardráttur, hvert tár sem hvílir á barmi auga er þrungið. Þá stígur einnig fram ungur leikari, Jörundur Ragnarsson, sem stendur reyndu leikurunum algjörlega jafnfætis með sterkri nærveru og fallega tilfinningu fyrir hverju smáatriði í sinni persónu. Maður hreinlega trúir að hann sé skilgetið afkvæmi Ingvars og Eddu - leikaranna. Svo þroskuð er frammistaða hans."

Viðar Eggertsson á eggmann.blog.is 

 

"Þetta er átakanlegt efni sem auðvelt er að gera væmið og óþolandi tilfinningasamt. Það gerist ekki hér. Sigtryggur heldur fast utan um það og leyfir því aldrei að renna úr greipum sér, og hann fær dygga aðstoð leikara og leikstjóra við það. Ingvar, Edda og Jörundur lifa efnið fremur en að þau leiki það, eða svo er að sjá. Maður grætur ekki yfir þjáningu þessa fólks heldur kvelst hægum kvölum milli þess sem maður hrekkur í kút undan svipuhöggum textans. Fegurð hans og þróttur kemur þeim ekki á óvart sem sá eða las fyrra leikrit Sigtryggs, Herjólfur er hættur að elska sem var sett upp á vegum Þjóðleikhússins vorið 2003. Þar var þjáningin líka viðfangsefnið - ástin, dauðinn og sektin, eins og hér."

Silja Aðalsteinsdóttir á www.tmm.is 

 

"Ástin og dauðinn eru Sigtryggi Magnasyni hugleikin viðfangsefni. Nafnlausu hjónin í þessu verki hans eru rígbundin, ofurseld harmi, glæp úr fortíðinni, sem hindrar þau í að skilja, og tala saman. Hjónabandið er dautt. Dauðinn umlykur það einnig í líki sögumanns, sonar. Hann dýpkar samtalið, skýrir það stundum eða flækir og leiðir það áfram til afhjúpunar og hins óhjákvæmilega endis. Fallega ljóðrænn er texti þessarar vel smíðuðu fléttu, fínleg írónía skýtur oft upp kollinum og knöpp samtöl eru lifandi.

Edda Arnljótsdóttir og Ingvar Sigurðsson leika hin umkomulausu hjón. Þau hafa, þykir manni, setið lengi, jafnvel áratugum saman í þessum sófa, og hreyfa sig í þröngri stofunni, húsinu, af eðlilegu öryggi þess sem þekkir hvern krók og kima. Samband þeirra eða sambandsleysi er þrungið því ósagða og ósegjanlega. Nærvera Ingvars er eins og allajafna ótrúlega sterk. Edda, sem konan er gert hefur "eymdina" að eina valkostinum, er þó ennþá betri. Henni, sem hefur svo einstaka tilfinningu fyrir húmor, tekst auðveldlega að láta íróníu textans lifna við.


...

Á tímum þegar leikritun stendur nokkuð höllum fæti í evrópsku leikhúsi er gaman að ganga til stofu skálds og hlusta á heillandi texta sem gerir kröfur til leikara."

María Kristjánsdóttir í Morgunblaðinu 

 

„Undarlega fallegt og heillandi...“

„... sérstaklega fallegt látleysi í leiknum hjá Jörundi“

Þorgerður E. Sigurðardóttir, Víðsjá.

 


Staðfestar sýningar á Yfirvofandi

16. janúar, daginn fyrir afmæli dóttur minnar verða fyrstu sýningar á Yfirvofandi á heimili mínu í nýrri en stuttri rispu. Þann daginn eru fyrirhugaðar sýningar kl. 19 og 21 og laugardaginn 19. kl. 19 og 21. Eins og áður hefur komið fram komast fáir á hverja sýningu, aðeins 20, og því sæti takmörkuð auðlind. Áhugasamir hafi samband við mig með því að senda mér línu á naiv@internet.is.


Yfirvofandi tekið til sýninga að nýju um miðjan janúar

Það er gaman frá því að segja að Gyðjan og Yfirvofandi voru þær tvær sýningar sem Þorgerði E. Sigurðardóttur voru efst í huga eftir leikhúsárið 2007.

Yfirvofandi var sýnt á Lokastíg 5, nokkrum sinnum, á Listahátíð í vor. Nú ætlum við sem að sýningunni stóðu, undirritaður Sigtryggur Magnason, Edda Arnljótsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Jörundur Ragnarsson að ógleymdum Bergi Þór Ingólfssyni leikstjóra, að endurtaka leikinn fjórum sinnum um miðjan janúar. Einungis er stefnt að fjórum sýningum og komast 20 á hverja sýningu og er ein sýning uppseld nú þegar. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við Sigtrygg Magnason á naiv@internet.is til að tryggja sér miða. Nákvæmar dagsetningar verða kunngjörðar innan skamms en líklegast er um að ræða mánudaginn 14. janúar og þriðjudaginn 15. Sýningar verða væntanlega kl. 19 og 21.

Einnig minni ég á að verkið sjálft er til í bók á íslensku og ensku og fæst bókin í Máli og menningu og Eymundsson og svo auðvitað hjá höfundi sem býður betri kjör.

Annars bara, rock on.


Hin hræðilega drengjaveröld

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins á laugardag:

Ég hef stundum velt því fyrir mér, þegar dagblöð og fréttir dagsins mæta mér, hvernig það sé að vera ungur strákur og fara í gegnum þessa hrúgu af hryllingsfréttum þar sem karlmenn eru oft í hlutverki hins vonda.

Á síðustu árum hefur hlutfall karla í háskólanámi farið niður í 30% og við fáum stöðugar fréttir af því að strákum líði illa í skólum. Já. Strákum líður illa í skólum! öskra fyrirsagnirnar á mann og maður veltir því fyrir sér hvað réttlæti þessar fyrirsagnir. Jú, þær eru byggðar á könnunum sem sýna að hærra hlutfall drengja en stúlkna líður illa í skóla. Strákum líður hlutfallslega verr í skóla en stelpum. Það þýðir hins vegar ekki að öllum strákum líði illa í skóla. Hversu margar fyrirsagnir þurfa þeir að sjá sem benda til annars til að upplifa sig sem fórnarlömb við minnstu áföll í skólanum? Og stundum finnst mér margt benda til að á lokasprettinum að jafnrétti kynjanna, sem vonandi kemur að á næstu árum, verði farið hressilega yfir á hinn kantinn þar sem drengirnir munu lenda undir. Verulega.

Það er og staðreynd að ungir karlmenn eiga við ýmis alvarleg vandamál að stríða. Pétur Tyrfingsson rekur á bloggi sínu, eyjan.is/peturty, alvarleg vandamál eins og háa sjálfsvígstíðni, námserfiðleika og brottfall úr skólum. Hverjir eru málsvarar drengjanna í fjölmiðlum? Er ekki ávísun á nýjan rússibana í ójafnrétti að skipta mannkyninu stöðugt upp í tvo hópa og alhæfa um báða?

Ímynd karlmanna í fjölmiðlum er oftast ímynd hins grófa og hins sterka. Ungir strákar horfa upp á karlmenn, vel greidda eða lítið greidda, akandi um á Range Rover jeppum með tugi milljóna í laun á mánuði og milljarða eignir; karlmenn sem eru íþróttastjörnur með tugi milljóna í laun á mánuði; karlmenn í rappmyndböndum sem eru hlaðnir gulli og bling-blingi með dansandi konur í kringum sig; karlmenn sem drepa; karlmenn sem nauðga; karlmenn á mótorhjólum sem dýrka ofbeldi; eiturlyfjasala; karlmenn sem ráða. Hvers konar pressa er lögð á þessa drengi? Ef litið er yfir fréttaflutning síðusu missera af vinnumarkaði fer mikið fyrir fréttum af pólskum og litháískum karlmönnum. Þeir eru ímynd hins fátæka farandverkamanns sem vinna fyrir lág laun alla vikuna en eru síðan með óspektir um helgar, drekka mikið, slást, áreita konur. Það má fá þá almennu mynd úr fjölmiðlum og heitum pottum þessa lands að þeir séu hið lægsta á þessu landi um þessar mundir.

Getur verið að ungir strákar upplifi sig vanmáttuga gagnvart þessu samfélagi þar sem peningar eru allsráðandi? Hvað gerirðu ef þú átt ekki peninga?

Það er almennt talið að sjálfsmynd mótist meðal annars af þeirri kynímynd sem birtist í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu. Og hver er ímynd karlmannsins? Mér varð hugsað til þess þegar ég gekk yfir Skólavörðustíginn og varð litið til Hallgrímskirkju sem reis á háholtinu við enda götunnar að þar væri komið hið mikla reðurtákn Reykjavíkur. Og þar sem ég gekk niður Klapparstíginn sótti á mig hin gildishlaðna mynd sem reðurtáknið hefur fengið. Reðurtáknið er í nútímanum tákn um feðraveldið og yfirgang karla í gegnum aldirnar. Ég hugsaði með mér hvort það væri ekki óæskilegt og óeðlilegt að gera þetta tákn um frjósemi og framgang lífs á jörðinni að tákni um ógeðfellda kúgun, ofbeldi og niðurlægingu. Gæti það ekki haft slæm áhrif á kynímynd drengja?

Um hverja verslunarmannahelgi eru áberandi slagorð sem varða unga karlmenn og nauðganir. Karlmenn segja nei við nauðgunum! segja auglýsingarnar eins og það sé eitthvað nýtt, eins og að inni í hverjum ungum manni búi skrímsli sem gæti losnað úr fjötrunum, eins og maðurinn sé í grunninn vondur, grimmur.

Á tímum þar sem hraðinn keyrir úr hófi og pólitíkusar eru með glampa í augunum yfir því að vera loksins komnir í hóp með gróðapungunum er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. Hvernig viljum við búa að strákunum okkar? Hvernig ætlum að rétta hlut þeirra í skólakerfinu þannig að þeim líði betur, verði hrósað jafn mikið og stelpum og hætti ekki í skóla áður en framhaldsmenntun er lokið, þar sem þeir eru einungis þriðjungur háskólanema? Hvernig ætlum við að verja þá fyrir því afskræmda gildismati sem heimur karlmanna í fjölmiðlum sýnir, heimur þar sem peningar og völd skipta öllu máli?

Annars er fyrirsögnin fengin úr viðtali DV við Guðnýju Halldórsdóttur leikstjóra. Hún segir að við búum í hræðilegri drengjaveröld.

Flott hjá Björgólfi!

Það er gaman að heyra að Björgólfur og RÚV hafi samið um að efla íslenska dagskrárgerð. Í tilefni af þessum gleðitíðindum birti ég hér pistil sem ég skrifaði í Lesbók og birtist í lok september.

Range Rover breytir ekki sögunni

"En nú get ég hætt að horfa á Spaugstofuna," sagði Jónas Kristjánsson á vefsíðu sinni www.jonas.is þegar ljóst var að Randver Þorláksson yrði ekki með í Spaugstofunni í vetur. Stóra Randversmálið er auðvitað mál málanna þessar vikurnar. Kertafleytingar voru um tíma yfirvofandi og Randver heim! var krafa almúgans sem hefur í þrjúhundruðogeitthvað þætti setið við kassann og drukkið í sig spaug Spaugstofunnar. Hvað verður um Boga og Örvar? spyr fólk. Skiljanlega.

Saga Randvers er íslenskt sjónvarpsdrama. Við fáum sjaldan eða aldrei að upplifa íslenskar leiknar sápur sem eru ekki drifnar áfram af húmor einum saman. Húmor er yndislegur og nauðsynlegur en það er leitt til þess að hugsa að hjartað í okkur sjónvarpsáhorfendum fær aldrei að taka kipp með ótrúlegum vendingum í sögum persóna sem spretta upp úr íslenskum jarðvegi; með skálduðum íslenskum persónum. Íslenskt sjónvarpsdrama er undantekningalítið alvöru fólk og alvöru atburðir, fréttir eða viðtöl. Við getum fengið kökk í hálsinn þegar við horfum á eitt af fjölmörgum átakanlegum einkaviðtölum Kastljóssins en samlíðunin verður aldrei lík því sem maður upplifir við að fylgjast með skáldaðri persónu í heilum þætti, tala nú ekki um heila þáttaröð. Íslenskt sjónvarp er um. Það er fjölmiðill en ekki tæki til frumsköpunar á borð við þá þætti sem við fáum að sjá frá öðrum löndum og þá sérstaklega Bretlandi með allri sinni hefð og fagmennsku og skáldskap. Í íslensku sjónvarpi er með örfáum undantekningum sagt frá hlutum eða þeir stjórnast af fréttatímunum eins og raunin er með hina ágætu Spaugstofu. Stelpurnar á Stöð 2 er hefðbundinn sketsaþáttur og Auddi hræðir íslenskar stórstjörnur að erlendri fyrirmynd.

Næturvaktin hóf göngu sína á Stöð 2 síðasta sunnudag. Það er óhætt að segja að sá þáttur lofi góðu og ekkert minna en yndislegt að búin sé til sería þar sem við fáum að fylgjast með samskiptum og tilfinningalífi fólks, fáum tækifæri til að gleðjast og syrgja.

Það vantar meira íslenskt leikið efni. Ekki bara út af tungumálinu eins og ég skrifaði um í síðasta pistli heldur vegna sjálfsmyndar þjóðarinnar, upplifunarinnar af eigin samfélagi. Fréttir og viðtalsþættir geta aldrei sýnt samfélagið í fullnægjandi ljósi. Við fáum ekki fréttir af því þegar maður í Kópavogi verður ástfanginn. Við fáum ekki fréttir af því þegar heilbrigt barn fæðist á Ísafirði. Fréttir nærast á afbrigðileika, því sem stendur út úr. Gamanþættir nærast á húmor. Við þurfum efni sem nærist á lífinu. Öllu.

Aðferð fréttamennskunnar nægir ekki til að hreyfa við fólki. Gott dæmi um það er öll sú umfjöllun sem fyrir nokkrum árum var um mansal frá fyrrverandi austantjaldslöndum til Norður-Evrópulanda. Fréttir eru sagðar á hverjum degi, oft á hverjum degi. Þær eru því að sumu leyti dæmdar til að verða suð, bakgrunnstónlist. Listaverk Lúkasar Moodyson, Lilja 4-Ever, snerti við fólki. Fólk grét yfir örlögum þessarar stúlku. Það fann til samlíðunar. Fréttir greina frá atburðum, því sem er óvenjulegt en ekki því sem við eigum sameiginlegt. Það þarf listamenn til að sýna okkur manneskjuna, sýna okkur það sem við eigum sameiginlegt. Þá sjáum við spegilmynd okkar í manneskju eða í aðstæðum hennar.

Það sem vantar núna er dramatískur framhaldsþáttur. Við þurfum ekki enn einn þáttinn um samfélagið. Við þurfum þátt þar sem við fáum að kynnast fólki sem á rætur sínar í okkar samfélagi. Við þurfum að geta speglað okkur í manneskjum og aðstæðum sem nágrannar okkar þekkja en ekki við. Og það dugar ekki að gera heimildarmynd um það. Gleymum forvitninni og kröfunni um upplýsingar í smá stund og leyfum okkur að finna til.

Sorrí Þórhallur, ég veit að það stendur mikið til hjá þér, en ég óttast að það sé ekki nóg. Kristján B. Jónasson stakk upp á því í blogginu sínu fyrr í vikunni að einhver jöfurinnn snaraði fram 300 milljónum til að skilja eftir sig ódauðlega arfleifð með því að láta þýða allar heimsbókmenntirnar yfir á íslensku. Geta hinir ekki sameinast um eins og 800 milljónir í þróunarsjóð fyrir íslenskt leikið sjónvarpsefni? Við þörfnumst þess sem þjóð.

Kæri Jón, það eru í mesta lagi 50 Range Roverar. Og Range Rover breytir ekki sögunni.
mbl.is Björgólfur Guðmundsson leggur fram fé til framleiðslu sjónvarpmynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fríblöðin, Bónus og Krónan

"If there's something wrong
in the neighbourhood,
who can you call?
Ghostbusters!"


Mig langaði að vitna í amerískt ljóð eftir Ray Parker yngra í upphafi þessa pistils. Mér datt þetta ástsæla ljóð í hug þegar ég velti því fyrir mér hvert fólk með upplýsingar um meint verðsamráð lágvöruverslana á Íslandi treystir sér til að leita. Eins og hlustendur Ríkisútvarpsins og lesendur Morgunblaðsins eru vel upplýstir um þá hafa vaknað grunsemdir um óeðlilega hegðun lágvöruverslana í sambandi við verðkannanir og verðlagningu. Þetta er auðvitað stórmál ef rétt reynist og satt best að segja lítur þetta ekki vel út því ábendingum og upplýsingum frá fyrrverandi og núverandi starfsfólki Bónuss og Krónunnar hefur rignt yfir RÚV og ASÍ undanfarna daga frá eða frá því Guðrún Frímannsdóttir fréttamaður á fréttastofu Útvarps sagði fyrst frá starfsháttum verslananna á miðvikudag.

Það ríkir fákeppni á íslenskum matvörumarkaði. Tveir risar ráða lögum og lofum. Kaupás og Hagar eru gríðarlega stór og sterk fyrirtæki sem hafa innan vébanda sinna verslanir í öllum verðflokkum, allt frá lágvöruverslunum upp í klukkubúðirnar sem eru sumar hverjar opnar allan sólarhringinn. Ólíkt því sem þekkist frá útlöndum þá eru sumar þessar lágvöruverslanir glæsilegar og jafnvel staðsettar í helstu kringlu þessa lands þar sem leiguverð á fermetra er örugglega sæmilega hátt. En hvað um það.

Fréttastofa Útvarps átti fréttina og Síðdegisútvarpið fylgdi henni vel eftir. Daginn eftir tók Morgunblaðið fréttina upp á forsíðu með stuttri frétt á forsíðu og tæpri heilsíðu inni í blaðinu. Í Fréttablaðinu var efsta frétt á síðu 2, í 24 stundum ca. 3 dálksentimetrar. Ég hef áður í pistlum mínum í Lesbók fjallað um ólíka stöðu áskriftarfjölmiðla og fríblaðanna. Áskrifendur veita fjölmiðlinum aðhald og stuðning. Þeir eru mikilvægt mótvægi við auglýsingadeildir og eigendur blaðanna. Fríblöðin berast inn á heimilið án þess að viðkomandi greiði fyrir þau. Sérstakar aðgerðir þarf til að koma í veg fyrir að þau séu borin í hús. Ef mér mislíkar efni þeirra eða ritstjórn get ég sett upp miða þar sem ég afþakka þau eða vonast til þess að verða þess heiðurs aðnjótandi að lenda í næstu fjölmiðlakönnun og segjast aldrei sjá fríblöðin.

Fríblöðin eru viðskiptahugmynd sem gengur út að auglýsingar greiði fyrir kostnaðinn við að halda úti ritstjórn og vel það. Í viðskiptahugmyndinni felst það að fréttir eru mikilvæg og vinsæl neysluvara í samtímanum og með því að gefa út góðan fréttamiðil sé hagstætt að selja auglýsingar. Af þessu leiðir að auglýsendur og eigendur hafa mikið vægi og vald þegar kemur að fríblöðunum. Í módeli fríblaðanna eru engir áskrifendur. Auglýsendur borga laun ritstjórnanna og eigendur geta skorist í leikinn ef í hart fer og tekjur af auglýsingum detta niður í stuttan tíma.

Þá komum við upphafsorðum þessa pistils. Hvert hringir maður til að koma á framfæri gríðarlega mikilvægum upplýsingum um neytendamál, eins og til dæmis samráði á matvörumarkaði? Þegar kemur að slíkum neytendamálum er fríblöðunum greinilega vandi á höndum. Matvöruverslanirnar eru hluti af stórum keðjum sem síðan eru hluti af sterku viðskiptaveldi sem rekur fjölda verslana og þjónustufyrirtækja og í sumum tilfellum eru stórir auglýsendur hluti af eigendahópi fjölmiðlanna.

Karl Garðarsson sem eitt sinn var kenndur við Blaðið sagði að fríblöð væru eins góð og þau þyrftu að vera. Auðvitað eru þau það. Þau verða eins og önnur fyrirtæki að finna hinn gullna meðalveg milli kostnaðar og metnaðar. Ritstjórnir fríblaðanna eru eins og stjórendur fyrirtækjanna meðvitaðir um að það eru auglýsendur sem borga þeim launin. Án auglýsendanna væru engar ritstjórnir, engin fríblöð. Og hvert hringir þá sá sem hefur mikilvægar upplýsingar um mögulegt samráð og svindl á matvörumarkaði? Í ritstjórnir fríblaðanna?

Í máli Bónuss og Krónunnar kristallast mikilvægi þess að fjölmiðlar séu fjölbreyttir, bæði hvað varðar eigendur og rekstrarform. Við megum nefnilega ekki gleyma því að fjölmiðlar eru bara fyrirtæki eins og öll hin fyrirtækin.


Birt í Lesbók Morgunblaðsins 3. nóvember 2007

Bókin er komin í búðir

Yfirvofandi er komin í búðir og er þeim göldrum búin að hún er bæði á íslensku og ensku og hentar vel til gjafa, miklu frekar en áskrift að til dæmis Iceland Review. Enska þýðingin er eftir rithöfundinn Lani Yamamoto sem skrifaði hinar frábæru bækur um Albert sem nú eru komnar út á íslensku í boði Bjarts. Hörður Kristbjörnsson hannaði bókina af sinni alkunnu snilld.
Bókin er enn sem komið er aðeins aðgengileg í Máli og menningu á Laugavegi og Eymundsson Austurstræti en það stendur til að kippa því í liðinn. Rifja má upp að María Kristjánsdóttir hrósaði bókinni sérstaklega í afbragðskrítík sinni um verkið fyrr í ár þegar verkið var sýnt á Listahátíð.
Einnig er hægt að nálgast bókina með því að hringja í höfundinn, 661 1100, eða senda honum skeyti á naiv@internet.is.

Rock and roll.


Fríríkið Kókavík

Þegar geðveikin í miðborg Reykjavíkur er komin langt yfir þolmörk íbúa er þá ekki bara réttast að girða hana af og stofna fríríkið Kókavík? Hægt er að afhenda afsagaðar haglabyssur og dóp við innganginn svo allir standi jafnfætis í átökum nóttanna.
Það er annað hvort það eða að yfirvöld láti hendur standa fram úr ermum og taki á vandamálinu af alvöru - og þá meina ég alvöru alvöru.

Í bili

Jæja, þá er þetta búið í bili. Leikhúsið á Lokastíg er komið í frí, allavega í sumar. Á þremur vikum hafa 300 manns gengið um stofuna hjá okkur og upplifað snilldarleik Eddu, Ingvars og Jörundar. 

Þrátt fyrir þetta hlé er aldrei að vita nema maður hripi nokkur orð inn á þessa síðu annað slagið, svona fyrst maður hafði fyrir því að stofna þetta.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband