16.12.2008 | 10:24
Æ sér gjöf til gjalda - um íslenskan fjölmiðlamarkað
Líklega má orða ástandið á íslenskum fjölmiðlamarkaði þannig að allt sé að fara til fjandans.
Skjár einn ber sig aumlega, bað fyrir nokkru fólk um að velja milli þess að Skjár einn legði upp laupana eða RÚV færi af auglýsingamarkaði. Mér virðast allir aðstandendur einkarekinna sjónvarpsstöðva, þ.e. fjölmiðlar á snærum Baugsblokkarinnar annars vegar og Existu hinsvegar, berjast fyrir því að RÚV minnki hlut sinn á sjónvarpsauglýsingamarkaði og helst hverfi þaðan. Auðvitað. Það eru þeirra hagsmunir að auka tekjur sínar.
Markaðurinn hjálpar þeim fjölmiðlum sem vita ekki hvað þeir eru eða vilja verða. Hann stýrir þeim inn á meðalbrautina sem engan meiðir og engan mikilvægan styggir. Það er sú hönd sem hefur haldið gagnrýnisröddum á framgang íslenskra viðskiptamanna í lágmarki í umræðu síðustu ára.
Ég las á bloggi um daginn að íslenskir fjölmiðlamenn væru þeir verstu í heimi og þeir bæru mikla ábyrgð á því hvernig er komið fyrir íslensku samfélagi. Ég get ekki tekið undir að íslenskir fjölmiðlamenn séu þeir verstu í heimi. Þeir endurspegla einfaldlega, eins og fjölmiðlar almennt gera, gildismat þjóðarinnar. Við höfum hins vegar búið við mjög óheilbrigt fjölmiðlaumhverfi þar sem lesandinn, íslenska þjóðin, hefur verið í aukahlutverki.
Fyrir nokkrum árum skutu upp kollinum á erlendum brautarstöðvum og strætisvögnum svokölluð metró-blöð. Ég var við störf á DV á þeim tíma sem slíkt dýrindi barst í hendur forsvarsmanna Frjálsar fjölmiðlunar sem töldu sig hafa gripið guð í fótinn. Svona átti að gera hlutina. Gefa þá!
Íslenska módelið var ansi mikið merkilegra en það útlenska. Með sama dreifingarfyrirkomulagi og tíðkaðist erlendis hefði ekki þurft að prenta mörg eintök fyrir íslenska strætisvagna. Í íslenska kerfinu bættist við stórkostlegur kostur og kostnaður sem var að bera blaðið út, alla leið á heimili fólks.
Auglýsendur og eigendur fjármögnuðu og fjármagna útgáfu og dreifingu Fréttablaðsins og um tíma fjármögnuðu þeir líka 24 stundir. Ég hef áður fjallað um áhrifaleysi lesenda þegar kemur að frímiðlum. Kaupmáttur þeirra er enginn. Þeir eru aðeins tilviljanakenndar prósentur á markaðsplöggum. Auglýsendur ráða og gildismat meirihlutans ræður. Gagnrýnir fjölmiðlar eiga erfitt uppdráttar í slíku umhverfi.
Auðvitað er rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla stórlega skekkt. Þau frumvarpsdrög sem komið hafa fram beina sjónum sínum að ljósvakamiðlunum og takmarka aðgang RÚV að auglýsendum. Staða RÚV hefur alltaf verið sterk á auglýsingamarkaði og ætti ekki að koma neinum á óvart, allra síst Skjá einum sem er frímiðill sem hefur ætlað sér að bera sig algjörlega á auglýsingum. Er hægt að ætlast til þess núna, þegar viðskiptamódelið er í uppnámi, að ríkið hlaupi undir bakkavör?
Dagskrá og innihald fjölmiðla eru verðmæti eins og aðrar vörur. Á bak við fjölmiðla liggur mikil vinna og þekking. Á þeim fer fram verðmætasköpun, blaðamenn og dagskrárgerðarmenn skapa verðmæti; fréttadeildir búa til verðmæti úr upplýsingum með sérþekkingu sinni.
Það skyldi þó ekki vera svo að það sem á síðustu árum hafi verulega skekkt rekstrarstöðu fjölmiðla á Íslandi hafi verið ákvörðun mjög fjársterkra aðila um að halda úti svokölluðum frímiðlum?
Ég legg til að þingmenn fari rólega í að samþykkja lög um að skerða tekjumöguleika Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í eilífri og vonlausri leit sinni að patentlausnum. Það væri eins og að hengja bakara fyrir, ja, fyrir búðarmann.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 13. desember 2008.
Stóðum andspænis þessum hroðalegu örlögum" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég held ég geti skrifað upp á hvert orð hjá þér hér að ofan, félagi Sigtryggur. Mér finnst líka alveg glatað að þegar þeir sem hafa hellt sér út á fjölmiðlamarkaðinn á óskhyggju og misvel grundaðri bjartsýni einni saman koma svo eftir á og heimta breytingu á því umhverfi sem þeir þó máttu gera sér ljósa grein fyrir áður en þeir stungu sér í pyttinn.
Hafi þeir skömm fyrir sem rýra hlut RÚV til að hygla undangraftarliðunum.
Sigurður Hreiðar, 16.12.2008 kl. 12:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.