Áttundi nóvember

Þessi pistill var birtur í Lesbók síðasta laugardag:

Þegar þetta er skrifað að morgni þriðjudagins 11. nóvember gilda neyðarlög á Íslandi. Þrír bankar hafa verið þjóðnýttir og breska ríkisstjórnin hefur beitt hryðjuverkalögum gegn íslenskum borgurum. Um fimm þúsund manns komu saman á Austurvelli síðasta laugardag til að mótmæla. Fáni lágvöruverslunar var dreginn að húni á þinghúsi þjóðarinnar. Eggjum og skyri var kastað í þinghúsið. Á öllum kaffihúsum, kaffistofum ræðir fólk ástandið: uppsagnir, samdrátt, gjaldeyrishöft, framtíðina.

Austurvöllur síðasta laugardag. Við ákveðnar aðstæður verður mannfjöldi að sérstöku dýri, skepnu sem hefur allt aðra eiginleika en einstaklingarnir sem mynda hann. Þeir sem vinna í leikhúsum þekkja þetta, þekkja hvernig leikhúsið breytist eftir kvöldum, eftir því hvernig áhorfendur tengjast. Síðasta laugardag voru mörg þúsund manns saman komin á Austurvelli af ýmsum ástæðum. Óánægja er líklega það sem sameinaði flesta, næg óánægja til að fórna tíma til að mæta á Austurvöll. Og það voru engar fríar pylsur, engin opnunartilboð.

Þegar ég horfði á sjónvarpsfréttir laugardagskvöldsins og sunnudagskvöldsins varð mér hugsað til allra myndskeiðanna þegar sjónvarpsfréttamennirnir hafa fylgst með opnun leikfangaverslana, verslunarmiðstöðva þar sem Íslendingar hafa keypt mikið, slegið kreditkortamet, og eytt til að spara. Á þeim kvöldum hafa áhorfendur frétta stundum fengið að horfa á myndskeið úr þessum verslunum þar sem þau eru sett á meiri hraða og tónlist þöglu myndanna eða úr Benny Hill þáttunum er leikin undir. Það hefur mátt gera grín að venjulegu fólki. Datt mönnum einhvern tíma í hug að leika stefið úr Benny Hill undir myndum frá undirskrift frá enn einum tímamótasamningum auðmannanna eða þegar forseti Íslands veitti Baugi Útflutningsverðlaun?

Austurvöllur 8. nóvember 2008 var merkileg stund. Ekki af því hún væri göfug heldur vegna þess að á þessum stað á þessari stund var sár íslensks samfélags. Og fyrir þá sem ekki vita þá er íslenska þjóðin særð. Hún hefur verið niðurlægð af mönnum sem gerðu hana gjaldþrota, bæði fjárhagslega og siðferðilega. Ofan á þá niðurlægingu bætist lítilsvirðingin sem felst í því að enginn axlar ábyrgð, enginn talar. Þar á ofan kemur það sem margir upplifa sem gagnsleysi fréttamiðlanna og þá sérstaklega sjónvarpsins.

Ein ljósmynd á forsíðu Fréttablaðsins á sunnudag segir meira en allar fréttir sjónvarpsstöðvanna. Góður fréttaljósmyndari getur miðlað sannleika og andrúmslofti betur en sjónvarpsvélarnar. Nálgun hans er oft listræn, hann finnur sjónarhornið, sker myndina í huganum og litgreinir. Ein mynd getur sagt meira en þúsund orð.

Hvar eru orðin? Það eru að eiga sér stað sögulegir atburðir á Íslandi. Þurfa menn að vera í útlöndum til að geta lýst atburðum á þann dramatíska hátt sem þeim sæmir? Hefði íslenskur blaðamaður verið staddur í fjölmennum mótmælum í Úkraínu, systurlandi okkar í neyðinni, væri dramatíkin ekki spöruð. Við þekkjum öll sögur, þekkjum öll fólk sem hefur áhyggjur, fólk sem er reitt. Þegar rólyndur fertugur framkvæmdastjóri fer niður á Austurvöll til að kasta eggi í Alþingishúsið og stendur þar við hliðina á ungum námsmanni og tveggja barna móður og tugum annarra þá er það ekki skrílslæti eins og sumir fjölmiðlar og pólitíkusar vilja kalla það. Það er eitthvað miku meira, það er vitnisburður um ástand, ástand sem við þekkjum fæst en þurfum að horfast í augu við.

Skylda fjölmiðla er að fjalla um það sem er fréttnæmt. Þeirra skylda er ekki að halda fólki rólegu. Það gera þeir allra síst með því að gera lítið úr venjulegu fólki sem á ásamt börnunum sínum eftir að borga upp skuldir sem það stofnaði ekki til.

Íslenska þjóðin hefur lengi haft þörf fyrir góða fjölmiðla en aldrei eins og einmitt núna.


mbl.is „Stórkostlegur fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband