Ótrúlegt fólk

Leiksýning er alltaf ævintýri, ekki síst fyrir leikskáldið sem fær að sjá og heyra orð sín líkamnast á sviðinu. Ég hef tvisvar áður orðið þess heiðurs aðnjótandi að upplifa verk mín á sviði. Í fyrsta sinn var það árið 1996 í Stúdentaleikhúsinu og leikstýrði ekki ómerkari maður en Benedikt Erlingsson.


Vorið 2003, nánar tiltekið í maí, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu verkið Herjólfur er hættur að elska. Meistari Stefán Jónsson leikstýrði verkinu sem var sett upp í gamla Landsímahúsinu við Sölvhólsgötu en það var rifið skömmu síðar. Sigurður Skúlason fór með titilhlutverkið af sinni alkunnu snilld en Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Baldur Trausti Hreinsson komu þar einnig við sögu. Edda Arnljótsdóttir lék þar eiginkonuna í verkinu. Hún er ein af mínum uppáhaldsleikkonum og leikur einnig í verkinu Yfirvofandi sem verður frumsýnt á heimili mínu nú á fimmtudagskvöld. Ingvar Sigurðsson leikur þar eiginmann hennar og Jörundur Ragnarsson strákinn á heimilinu. Bergur Þór Ingólfsson heldur síðan um leikstjórnarþræðina.


Það er skemmst frá því að segja að allur æfingatíminn hefur verið magnaður. Það er líklega frekar óvenjulegt að hafa heilan leikhóp inni á heimilinu, ég tala nú ekki um þegar sjö eru í heimili. En börnin hafa tekið því með jafnaðargeði.
Kaffivélin hefur verið mikið notuð. Ég er að verða tilbúinn í kaffibarþjónakeppnina, ætli ég fari ekki á næsta ári. Og fyrir áhugasama þá notar Ingvar litla mjólk í kaffið en þykir voða gott að fá smá froðu. Aðrir eru venjulegir.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband