Neyðin brýtur neyðarlög

Stund sannleikans er runnin upp. Ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim. Allt í einu uppgötvuðu menn að ekki var hægt að bókfæra ímynd sem eignir, slíkt var ímyndun. Fyrirtæki höfðu vaxið á pappírunum en hvergi annars staðar. Mörg reyndust þau dagdraumar.

Þetta líður hjá.

Hins vegar stöndum við frammi fyrir stóru vandamáli. Við stöndum frammi fyrir almennu vantrausti, öryggisleysi.
Hvað stendur eftir þegar peningarnir eru farnir, partíið búið? Síðustu árin hefur gildismat okkar breyst. Þegar vel gengur minnkar þörf okkar fyrir hugmyndafræði og hugsjónir. Á góðæristímum verða stjórnmál verkefni, þau leysast upp í einstaka framkvæmdaþætti, hugsjónin verður óþörf og oft á tíðum til leiðinda. Á góðæristímum verður gildismatið fólgið í hagnaði. Í gamla daga var þetta kallað úrkynjun.

Á svona tímum þurfum við pólitík og pólitíkusa með hugsjónir og sýn. Nú dugar ekki hugsunarháttur góðærisins. Við þurfum sýn til að við getum aftur byrjað að treysta. Við verðum að treysta því að stjórnmálamennirnir okkar fylgi eigin sannfæringu en ekki þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta. Þeir sem bera ábyrgð á heildarhag samfélagsins mega ekki elta blinda viðskiptamenn fram af klettunum.

Þetta líður hjá.

Forsætisráðherra las minningargrein um horfið fjármálakerfi í gær. Dramatíkin var mikil. Eftir lesturinn sat fólk um allt land og hugsaði hvað hann hefði verið að segja. Við hvern var hann að tala?
Ástandið er tvískipt. Annars vegar eru íslenska bankakerfið að fara til andskotans vegna græðgi og almennrar heimskreppu og hins vegar situr íslenskur almenningur uppi með ónýtan gjaldmiðil. Þær hækkanir á vöru og þjónustu sem orðið hafa, þeir erfiðleikar sem fólk hefur lent í vegna erlendra lána og sú stöðuga hækkun sem fólk hefur séð vegna verðtryggingar lána koma til vegna þess að íslenska krónan hefur sokkið. Heimurinn þarf ekki á íslenskum krónum að halda. Íslenska krónan er fyrir umheiminum jafn kjánaleg og að borða svið. Helsti munurinn á íslenskum krónum og sviðahausum er hins vegar sá að við getum étið sviðin en krónan er næringarlaus.

Þetta verður allt í lagi.

Einn lagði til í gær að lög um umhverfismat yrðu felld úr gildi. Aðrir lögðu til að þorskkvóti yrði aukinn verulega. Höfum við ekkert lært? Hvað stendur eftir nú þegar veislunni er lokið? Fjölskyldur og fyrirtæki á barmi gjaldþrota og hálfbyggt tónlistarhús. Og ætlum við strax aftur á fyllirí?

Nú er tími til að stansa. Nú er tími til að hugsa aðeins fram í tímann því við ættum að hafa lært að einn daginn kemur að skuldadögum. Það er ekki hægt að ganga endalaust á höfuðstólinn. Ísland hefur enn þá náttúrulegu ímynd að útlendingar sækjast eftir að koma hingað og skapa okkur þannig tekjur. Enn þá.

Góðir hlutir gerast hægt.

Sannleikurinn er að koma í ljós. Með miklum harmkvælum. Nú verðum við að ganga alla leið í meðferðinni. Við verðum að viðurkenna vandann, skilgreina hann fyrir sjálfum okkur og það verður að gerast strax. Áður en við fórnum einhverju því sem aldrei verður bætt.

Þetta líður hjá. Þetta verður allt í lagi. Góðir hlutir gerast hægt.


mbl.is Samson óskar eftir greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Er nokkur ástæða til að halda að þetta líði hjá? Er það ekki yfirborðsleg bjartsýni? Nú fá hvers konar öfgaviðhorf,   "hugsjónir" byr undir vængi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.10.2008 kl. 10:52

2 Smámynd: Sigtryggur Magnason

Jú, Sigurður, eigum við ekki að vona að þetta líði hjá. Ég er alveg sammála þér varðandi hugsjónirnar að við verðum að passa okkur á að detta ekki alveg yfir á hinn kantinn, úr óheftu frelsi í fullkomin ríkisafskipti.

Sigtryggur Magnason, 7.10.2008 kl. 11:03

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við megum allavega ekki kasta frá okkur fullveldinu í einhverju kvíðakasti!

Guðmundur Ásgeirsson, 7.10.2008 kl. 13:32

4 Smámynd: Sigtryggur Magnason

Þegar ég segi „líður hjá“ þá á ég ekki við að það gerist án mikillar vinnu og mikilla átaka.

Og varðandi ESB-umræðuna þá held ég að við verðum að setja niður fyrir okkur hvað felst í FULLVELDI. Það er sérstaklega umhugsunarvert þegar þjóðin stefnir inn í skuldafangelsi vegna erlendra lána upp á mörghundruð milljarða.

Í gær var talað um mögulegt þjóðargjaldþrot. Neyðarlögin voru sett í þeirri viðleitni að komast hjá því. Sá slagur er hinsvegar ekki búinn.

Sigtryggur Magnason, 7.10.2008 kl. 16:05

5 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

 Halda ber til haga að kreppur verða ekki til fyrir tilviljanir eins og reynt er að telja okkur trú um, þær hafa tilgang og hann ekki fagran. Í bók sinni Falið Vald sýnir Jóhannes Björn okkur hvernig heimskreppan mikla í upphafi síðustu aldar var "sköpuð", engin ástæða til að ætla að þessi sé það ekki líka, við virðumst líka falla fyrir sömu brellunum aftur og aftur og fátt læra af sögunni, kannski ekki svo skrítið samt því fæstir sjá mkilvægustu upplýsingar nokkru sinni. Margir eru samt að vakna hratt þessa dagana og sjá að það er eitthvað mikið að og farnir að afla sér upplýsinga sjálfir í stað þess að láta massafjölmiðlana mata sig.

Georg P Sveinbjörnsson, 8.10.2008 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband